Glórulaus

(Í tilefni aðventunnar er hérna vísindasmásaga.)

Geimkönnuðirnir börðust í gegnum glórulausa blindhríðina, burt frá útbrunnu flaki geimskipsins. Þeir sáu nánast ekkert nema fæturna á sjálfum sér, snjóstormurinn var svo þéttur. Þeim var ekki kalt, þau voru öll í skærlituðum neyðarbúningum og með lokaða hjálma. En þeim sóttist samt ferðin illa.

Á undan þeim fór vélmennið þeirra, til allrar hamingju höfðu þeim tekist að ná því út áður en skipið fuðraði upp. Öskrandi bylurinn hafði lítil áhrif á vélmennið, það virtist hafa greinagóða hugmynd um stefnuna, enda sá það ágætlega. Efst upp á því voru alskyns nemar sem voru mun gagnlegri en augu við þessar kringumstæður, innrauðar myndavélar, hitasjár, jarðsjár, radar, leysi-miðunartæki og fleira. Auk þess var vélmennið stórt, helmingi hærri en venjulegur leiðangursmaður, þannig að það hafði gott útsýni.

Skipbrotsmennirnir gengu í einni halarófu á eftir því og héldu hvor í annan. Þetta var eiginlega allt upp í móti og þau urði fljótt móð og þreytt. Þau voru ekki gerð fyrir svona átök og höfði aldrei reiknað með því að þurfa að takast á við óblíða náttúru. Fyrir utan áhöfn skipsins voru þetta allt vísindamenn, ekki landkönnuðir eða hermenn. Þeirra hlutverk var ekki að djöflast um á yfirborði ókunnugra pláneta, allt annað en það.

Áfram hélt halarófan í gegnum kófið, lítill hópur einstaklinga á eftir stóra vélmenninu sem leiddi þau áfram eins og börnin sín. Þau reyndu að tala sín á milli í gegnum lokað kerfi hjálmanna, en þau voru svo uppgefin og andstutt að fátt heyrðist nema þungur andardráttur og einstaka stuna.

Þegar nýjar lífvænlegar plánetur uppgötvuðust var það þeirra hlutverk að setja sig á sporbraut og skrá, rannsaka, meta og gera tilraunir. Aðeins vélmennið átti að senda niður á yfirborðið, til sýnatöku. Vísindamennirnir sjálfir fóru yfir og túlkuðu niðurstöðurnar og sendu þær aftur til móðurstöðvarinnar. Seinna yrðu einhverjir harðjaxlar látnir fara niður, en ekki þau.  Vísindamennirnir áttu bara að fljúga áfram til næsta verkefnis.

Vélmennið stoppaði og flestir skipbrotsmennirnir löbbuðu utan í hvorn annan, einhverjir duttu um koll og bölvuðu hátt í samskiptakerfið. Í gegnum snjómugguna gátu þau greint hrjúfan klett fyrir framan sig, neðst á honum var dimmt op. Jarðfræðingarnir tveir fóru strax á undan og staðfestu að þetta var hellismunni.

Mínútu síðar voru þau öll komin inn og hentu sér á hellisgólfið, örmagna en fegin að komast inn úr storminum.

Þau höfðu nánast engan búnað með sér. Þegar þessi algjörlega óvænti loftsteinn skall utan í geimskipið þeirra hátt fyrir ofan yfirborði plánetunnar gafst lítið ráðrúm til að sanka að sér aukahlutum. Þeim tókst þó öllum að troða sér í neyðarbúninga og smella á sig hjálmanna áður en skipið þeirra skall niður. Það var með ólíkindum að skipstjóranum tókst að lenda skipinu í því ástandi sem það var og það án þess að nokkur skildi farast. En þegar stórlaskað farið nam staðar kom í ljós að ekki var öll kurl komin til grafar.

Það var dimmt inn í hellinum, en hver neyðarbúningur hafði daufa ljósgjafa á öxlum og hjálmi þannig að myrkrið varð ekki algjört.

„Heyrið þið“ það var líffræðingurinn sem sem fyrstur tók til máls, hann var lítill og mjóróma, „Við getum tekið af okkur hjálmanna. Það seinasta sem ég gerði fyrir áreksturinn var að fara yfir loftsamsetninguna, það er hægt að anda hérna.“

„Hvað með bakteríur eða hættulegar örverur?” spurði læknirinn. Hann var varkár og taugaóstyrkur maður, auk þess hafði hann ekki haft tíma til að taka með nokkuð af sínum áhöldum og efnum.

„Það logaði allt grænt á mínu borði, þessi pláneta er í raun ótrúlega lík því sem er heima” sagði líffræðingurinn. Sjálfur gerði hann samt enga tilraun til að taka ofan hjálminn. Það litu allir til skipstjórans.

„Jæja þá” skipstjórinn losaði klemmurnar og lyfti af sér hjálminum. Hann tók nokkra varlega andardrætti í gegnum nefið, „Svolítið kalt, og það er skrýtin lykt í loftinu. En samt er líklegast best að spara tankanna.”

Einn af öðrum tóku geimkönnuðirnir ofan hjálmanna, þetta var mjög mislitur hópur, en þau áttu það þó sameiginlegt að vera óttaslegin og ringluð.

„Hvað ætli þessi stormur standi lengi?” spurði skipstjórinn og beindi orðum sínum til veðurfræðingsins.

Veðurfræðingurinn var yngstur í hópnum. „Ég held að þetta sé bara staðbundin veðrabrigði, það lygnir sennilegast með morgninum.”

„Gott” svaraði skipstjórinn einfaldlega.

Þegar geimskipið þeirra nam loks staðar eftir ótrúlega langt fall hafði hann varpað öndinni léttar. Honum hafði tekist að lenda brakinu og allir um borð ómeiddir. En nokkrum sekúndum síðar höfðu reykjarslæður byrjað að stíga upp úr gólfinu. Hann hafði litið á mælaborðið, sjálfvirka slökkvikerfið var óvirkt.

Hann öskraði á alla að koma sér út og öll áhöfnin og vísindamennirnir hlýddu, allir nema jarðfræðingarnir tveir sem voru ákveðnir í að taka vélmennið með sér. Þetta var víst fokdýr og einstakur búnaður.

Þó svo að skipstjórinn hafði bölvað þeim þá var það eins gott að þeir tóku járnrisann með. Án vélmennisins höfðu þau sennilegast aldrei fundið þennan helli.

Það liðu nokkur andartök eftir að þau tóku af sér hjálmanna áður en einhver spurði hinnar óumflýjanlegu spurningar. Það var dýrafræðingurinn:

„Sendum við ekki örugglega út neyðarkall?”

„Auðvitað” svaraði feiti loftskeytamaðurinn hneykslaður, „Neyðarkallið er sjálfvirkt. En mér tókst samt að fá staðfestingu að það hafði borist til gervitunglsins sem við skildum eftir utarlega í kerfinu. Neyðarkallið mun berast áfram, það er öruggt.”

„Hvenær verður okkur þá bjargað?” spurði litli líffræðingurinn.

Loftskeytamaðurinn leit til siglingafræðingsins, svona útreikningar voru hans sérgrein.

„Jaa…” sagði siglingafræðingurinn með semingi og strauk yfir hrukkótt ennið, hann var þeirra elstur, „Miðað við eðlileg boðskipti og forgangsröðun, ætti björgunarskip að vera komið hingað eftir fjórtán daga.”

„Fjórtán daga?” stundi annar jarðfræðingurinn, „Hvað gerum við þangað til?”

„Við bíðum” svaraði skipstjórinn ákveðið, „Það er það eina sem við getum gert.”

„En vistir? Höfum við einhverjar vistir til fjórtán daga?” spurði vélstjórinn.

„Það er gott þú minntist á það, við þurfum að fara yfir birgðirnar, það er pakki við beltið aftan á búningunum ykkar, þar eru neyðarvistir og einhver áhöld.”

Þau tóku öll fram þessa pakka og skoðuðu með vaxandi örvæntingu.  Það kom í ljós að verktakafyrirtækið sem átti að sinna þessum hluta búnaðarins hafði svikið þau. Það voru bara neyðarvistir á fjórum búningum og engin áhöld á neinum þeirra, fyrir utan eitt vasaljós og rúlla af tannstönglum.

„Hvað gerum þá, þetta dugar okkur aldrei!” hrópaði loftskeytamaðurinn. „Einn matarkubbur á að duga einum manni í einn dag, við höfum bara tuttugu og átta kubba”.

„Það eru tveir komma einn kubbur á mann” sagði líffræðingurinn litli, hann var fljótur að reikna.

„Í fjórtán daga” vældi feiti loftskeytamaðurinn, „Það gengur aldrei upp.”

„Verið þið róleg, verið þið róleg” sagði skipstjórinn og safnaði saman öllum matarkubbunum, „Við byrjum á því að skammta þetta, það dugar í einhverja daga, á meðan reynum við að útbúa einhverja áætlun.” Hann leit út um hellismunnann, það var enn svartamyrkur og brjálaður stormur. „Við ættum að reyna að sofa núna, safna kröftum, okkur dettur eitthvað í hug í fyrramálið.”

Morguninn eftir hafði óveðrinu slotað, lítil köld sól skein hátt á himni, snjór og ís lágu yfir öllu. Þegar matarbirgðirnar voru dregnar fram kom í ljós að þær höfðu rýrnað talsvert um nóttina, það voru aðeins sautján kubbar eftir.

Það þurfti ekki langa rannsókn áður en feiti loftskeytamaðurinn brotnaði niður og viðurkenndi allt.

„Ég gat ekki af því gert!” vældi hann, „Ég var hræddur, taugaóstyrkur, ég réði ekki við mig.”

Skipstjórinn dæsti, en þverneitaði að refsa loftskeytamanninum, „Það var óumflýjanlegt að við þyrftum að finna aðrar fæðuuppsprettur, en bara fyrr en við reiknuðum með.” Hann leit yfir hópinn, „Einhverjar hugmyndir?”

„Við gætum étið loftskeytamanninn” sagði veðurfræðingurinn og glotti, það fannst engum þetta fyndið.

„Getum við yfirleitt nærst á því sem við finnum hérna?” það var vélstjórinn sem spurði og leit á efnafræðinginn.

„Þrátt fyrir að hafa ekki nein gögn þá finnst mér það afar líklegt, andrúmsloftið er sterkasta vísbendingin. Því svipar það mikið til okkar að það er mjög sennilegt að allt líf hérna sé byggt upp á svipuðum forsendum.”

„Einmitt” greip líffræðingurinn frammí, „Við getum lagt okkur til munns ýmsar plöntur, ber, rætur og þessháttar.”

Skipstjórinn leit vonlítill út um hellismunnann, þar var ekkert nema snjór og ís, „Þetta er sennilegast ekki rétti árstíminn fyrir plöntur og ber.”

„Nei, líklegast ekki” muldraði líffræðingurinn.

„Við þurfum þá að finna veiðibráð” sagði dýrafræðingurinn með bjartsýni í röddinni, „Reynslan hefur kennt okkur að jafnvel harðbýlustu vistkerfin hafa alltaf einhver stærri dýr.” Hann stóð upp og gekk að munnanum, hellirinn var hátt upp í hlíð og það var útsýni yfir snævi þakinn dal. Það mátti sjá glitta í frosið stöðuvatn í öðrum enda dalsins.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef það leyndust ekki einhverjar stórar lífverur í vatninu þarna.”

„Fiskur?” spurði loftskeytamaðurinn og það hýrnaði yfir honum, „Mér finnst fiskur góður.”

Þau ræddu þetta sín á milli, en þá kom í ljós að ekkert þeirra hafði veitt fisk, hvað þá fisk undir ís.

„Getum við ekki látið vélmennið gera það?” spurði stýrimaðurinn, en jarðfræðingarnir tveir sögðu að það væri algjörlega útilokað. Vélmennið var forritað fyrir sýnatöku á bergtegundum, andrúmslofti og plöntum. Það yrði að endurforrita það algjörlega til fiskveiða og því miður hafði allur hugbúnaður til slíkra verka fuðrað upp með skipinu.

„En fyrst það getur sótt plöntur, þá ætti það að geta gripið einhverjar stórar skepnur?” hélt vélstjórinn áfram.

„Hugsanlega” sagði annar jarðfræðingurinn, „Ef dýrið stendur alveg kyrrt.”

Þetta hljómaði ekki vel og þunglyndisleg þögn féll yfir alla geimkönnuðina. Alla nema einn.

„Ætli við verðum þá ekki að biðja hina innfæddu um mat?” sagði vistfræðingurinn, það litu allir á hana.

„Innfæddu? Hvað áttu við?” spurði skipstjórinn.

„Þegar við nálguðumst plánetuna var ég að fylgjast með lágskerpu loftmyndum sem myndavélarnar taka ávallt við aðkomu. Ég sá greinileg ummerki vitsmunalífs, beinar línur og hringi, hugsanlega akra.”

„Vitsmunalíf? Háþróað”?

„Nei nei, alls ekki. Ég nam engar bylgjur, ekki útvarps-eða rafbylgjur, eða ummerki um geislavirkni. Þetta er sennilegast mjög frumstætt.”

Leiðangursmenn ákváðu því að setja það á oddinn að finna þessar frumstæðu verur, ef það væri annars hægt í þessu óvistlega landslagi. Það tók enga stund, varla meira en hálftíma.

Veðurfræðingurinn hafði staðið við hellismunnann og var að skoða skýjamynstur þegar hann tók eftir einkennilega reglulegum hólum í dalbotninum. Hólarnir voru þaktir snjó og stuttu síðar sá hann eitthvað dökkt og lifandi færast á milli þeirra.

Það varð uppi fótur og fit meðal geimkönnuðina og allskonar ráðagerðir litu dagsins ljós. Þeir ákváðu loks að tvennt þeirra, vistfræðingurinn og veðurfræðingurinn yrðu send niður í dalinn til að reyna að koma á samskiptum. Þau voru ekki lengi í burtu en þegar þau snéru aftur voru þau bæði móð og í miklu uppnámi.

„Þau eru hræðileg!” hrópaði vistfræðingurinn, hún settist flötum beinum á hellisgólfið og reyndi að má andanum.

„Verurnar eru risastórar, mun stærri en við og kafloðin í þokkabót. Þau eru öll með agnarsmá augu og hrikaleg trýni sem skaga fram úr höfðinu. Kjaftarnir á þeim eru mjög stórir, fullir af hræðilegum tönnum. Þegar þau sáu okkur réðust þau að okkur með bareflum. Við áttum fótum fjör að launa.”

„En þessi hýbýli þeirra? Gátuð þið séð hvernig þau voru?”

„Þetta virðast vera holur eða greni sem þau hafa grafið inn í hólanna, mér sýndist þó að þetta væru mörg greni, öll tengd saman.”

„Merkilegt” sagði dýrafræðingurinn, „Föst búseta, það gefur til kynna að þetta sé einhverskonar frum-landbúnaðarsamfélag.”

Skipstjórinn varð hugsi, „Sáuð þið einhver húsdýr?”

„Nei en það var mikið af einkennilegum sporum allt í kring um grenin. Ég held að þau hafi öll verið frá loðnu verunum.”

„Þá gætu verið skepnur þar inni” sagði skipstjórinn og leit til jarðfræðinganna tveggja. „Þið sögðuð geta forritað vélmennið að sækja dýr ef það stæði kyrrt, ég held að þetta sé kjörið tækifæri til að prófa þá kenningu.”

Jarðfræðingarnir voru ekki alveg sannfærðir en létu þó til leiðast. Framan á vélmenninu var gylltur skjöldur þar sem tegundarnafnið var skammstafað. Þegar skjöldurinn var fjarlægður kom í ljós lítið lyklaborð og hófust jarðfræðingarnir handa við að pikka upplýsingar og fyrirmæli á borðið.

Innan stundar voru þeir búnir og vélmennið arkaði af stað niður í dalinn til að finna eitthvert æti. Þegar það koma aftur nokkru seinna hélt það á undarlegri skrækjandi skepnu í annarri klónni.

„Hjálpi mér!” hrópaði vistfræðingurinn, „Þetta er eitt af innfæddu verunum.” Vissulega var fyrirbærið loðið, með lítil augu og stórt trýni, en það var ekki jafnstórt og þau höfðu lýst.

„Af hverju er það svona lítið?” spurði stýrimaðurinn.

„Þetta hlýtur að vera ungviði” svaraði vistfræðingurinn.

„Getum við étið það”? spurði loftskeytamaðurinn með glampa í augunum.

„Að sjálfsögðu ekki, við étum ekki aðrar vitsmunaverur” svaraði vistfræðingurinn hneyksluð, “Við erum ekki villimenn.”

„Hvað eigum við þá að gera við það?”

„Við verðum að sleppa því lausu.”

Skipstjóranum fannst það hættuspil. „En ef við sleppum því sækir það ekki eldri verurnar til að ráðast á okkur?”

Vistfræðingurinn horfði á spriklandi veruna sem hékk enn í klóm vélmennisins. „Við skulum gefa því gjöf.”

„Gjöf?”

„Já, sýnum því upphefð og sleppum því síðan lausu. Þá mun það ekki líta að þessi kynni sem ógnvekjandi atburð.”

Þau ákváðu að reyna þetta. Veran var færð inn í hellinn þar sem hún var sett niður.

Leiðangursmenn áttu hinsvegar lítið til að gefa, annað en vasaljósið og rúlluna af tannstönglunum. Skipstjórinn vildi helst ekki missa vasaljósið, öryggisins vegna. En að lokum datt öðrum jarðfræðingnum að rétta verunni gullskjöldinn litla sem hafði hangið framan á vélmenninu.

Geimveran litla virtist kunna vel að meta þessa gjöf, því henni var mjög starsýnt á skjöldinn og strauk loppunni sinni yfir hann aftur og aftur.

Jarðfræðingurinn benti á skjöldinn og sagði seríunafnið sem þar var ritað, síðan benti hann á vélmennið. Þetta gerði hann nokkru sinnum en litla veran virtist hvorki skilja upp né niður. Að lokinni þessari athöfn var verunni sleppt og þaut hún strax af stað niður í dalinn í átt að grenjunum.

Skipbrotsmennirnir biðu síðan á felustað sínum milli vonar og ótta, en engar aðrar verur birtust þann daginn. Þau töldu því að ráðagerð vistfræðingsins hefði heppnast.

Það veitti þeim litla gleði því daginn eftir kláruðust seinustu mylsnunnar af matarkubbunum. Þau yrðu að finna eitthvert fæði, loftskeytamaðurinn var við það að tryllast og fleiri meðlimir hópsins voru tæpir.

„Grenin eru ennþá okkar besta von” sagði skipstjórinn íbygginn, „En við getum ekki treyst vélmenninu fyrir þessu, við verðum að fara sjálf.”

„Við öll?” spurði læknirinn óttasleginn, hann var ekki hugdjarfur maður.

„Nei bara einn, við köstum upp á það. Sá eða sú sem verður fyrir valinu fer í nótt þegar allar verurnar eru í fastasvefni, hann tæki vasaljósið með sér.”

Þau voru hikandi en samþykktu þetta þó. Þegar upp var staðið var það veðurfræðingurinn ungi sem varð fyrir valinu. Hann virtist ekki ósáttur við að fara nema hvað honum þótti það óþægilegt hvað neyðarbúningurinn var skærlitaður.

„Mér finnst ég agalega áberandi” sagði hann.

„Neyðargallar eiga að vera áberandi, svo það sé auðveldara að sjá þá” svaraði skipstjórinn, „En hafðu ekki áhyggjur, það tekur enginn eftir þér í myrkrinu.”

Veðurfræðingurinn hélt því af stað eftir sólsetur, en þegar hann kom aftur nokkrum tímum síðar var hann tómhentur. Hann hafði ekki fundið neitt matarkyns en hafði einhvernvegin álpast inn í hluta grenisins þar sem var mikill fjöldi af einhverskonar skaðræðisskepnum. Þær höfðu tryllst þegar hann kom þar inn og hann var næstum því troðinn undir.

Svipaða sögu var að segja næstu nótt en þá fór annar jarðfræðingurinn. Það sem hann fann voru fjallstór kvikindi, hyrnd og skelfileg. „Þetta…þetta voru örugglega stríðsskepnur” stamaði hann „Þær höfðu sennilegast étið mig ef ég hefði farið of nærri.”

Næstu leiðangursmenn er fóru niður að greninu rákust sem betur fer ekki á nein slík dýr, en fundu lítið ætilegt. Líffræðingurinn, vistfræðingurinn, dýrafræðingurinn og siglingafræðingurinn fundu engan mat, bara áhöld og ílát. Þau virtust tengjast einhverskonar matargeymslu, en öll ílátin voru tóm, fyrir utan nokkrar harðar skorpur innan í þeim.

Þegar röðin var komin að lækninum, vildi hann alls ekki fara og þau þurftu nánast að ýta honum af stað. Hann snéri aftur eftir stutta stund matarlaus. Hann sagðist hafa fundið einhvern hlera, en þegar hann reyndi að opna hann heyrði hann umgang. Þá var honum nóg boðið og hann kom sér burt.

Það var annars kaldhæðnislegt að sá hungraðasti sem kom loks aftur með eitthvað ætilegt. Loftskeytamaðurinn fann líka ílát, það var mjög stórt og sneisafullt hlaupkenndu efni. Sjálfur vissi hann ekki hvort þetta væri matur eða lím en hungrið knúði hann til að smakka. Bragðið var hræðilegt, en samt betra en ekki neitt.

Hann lenti hinsvegar í stökustu vandræðum með að flytja hlaupið, því hann hafði enga skál eða pott til að setja það í. Hann tróð því eins miklu og hann gat innan á sig, fyllti vasanna og hjálminn sinn líka.

Þegar hann kom aftur í hellinn hafði hlaupið bráðnað nokkuð og var farið að gutla í stígvélunum hans. Flestum hinum leiðangursmönnunum þótti það mjög ólystugt að drekka úr stígvélum loftskeytamannsins en létu sig þó hafa það. Nokkrum varð dálítið ómótt eftir drykkjuna en engin veiktist alvarlega.

Eftir þetta virtist gæfan þeim ögn hliðhollari. Nóttina eftir snéri stýrimaðurinn aftur með tvo langa hluti sem virtust vera einhverskonar innyfli. Þau vissu ekki hvort þetta væru líkamshlutar úr íbúum grenisins eða einhverju húsdýri, og reyndu að hugsa sem minnst um það. Þessir bitar voru allt annað en gómsætir, leiðangursmönnunum tókst þó að þræla þeim í sig.

Það var eftir þessa agalegu máltíð sem vélstjóranum datt snjallræði í hug:

„Við getum ekki verið að vaða svona blint um , leitandi í öllum skúmaskotum. Af hverju tökum við ekki innrauðu myndavélina af vélmenninu, það er hliðarskjár á henni. Síðan gæti ég farið niður að greninu í nótt og reynt að sjá hvar matarbirgðirnar eru geymdar.”

Þetta þótti snjallræði og hann lagði af stað með myndavélina strax um kvöldið. Nokkrum tímum seinna snéri hann aftur vondaufur.

„Það var ekkert að sjá. Grenið hefur nánast engin op, og þau sem ég fann sýndu ekkert annað en verurnar sofandi í bælunum sínum.”

„En bíðum nú við” sagði efnafræðingurinn spenntur, „Það er líka lífskanni á vélmenninu. Ef við gætum rifið hann af, stillt hann til að nema dauðar frumur í miklum þéttleika, þá gæti hann nánast þefað uppi eitthvað ætilegt.”

Flestum hinna fannst þetta fáránleg hugmynd en efnafræðingurinn sagði að þau höfðu litlu að tapa. Neminn var því tekinn af vélmenninu og hengdur framan á hjálm efnafræðingsins, og skagaði þessi hlutur fram eins og afkáralegur rani. En niðurstöðurnar voru hinsvegar mjög jákvæðar. Honum tókst að staðsetja nokkurn hluti sem voru líkleg matvæli, þó honum tækist ekki að ná til þeirra. Það var skipstjórinn sjálfur sem fór niður að greninu næstu nótt vopnaður staðsetningarupplýsingum efnafræðingsins.

Skipstjórinn snéri aftur sigri hrósandi með risastórt kjötstykki úr einhverri ókunnugri skepnu. Þetta kjöt var ólseigt og bragðaðist eins og tað, en langsoltnir skipbrotsmennirnir gerðu sér það að góðu þar til ekki var arða eftir.

Kvöldið eftir fór hinn jarðfræðingurinn í leiðangur og var hann sá seinasti af geimkönnuðinum sem gerði það. Hann snéri ekki aftur með neitt, enda sagði hann að allir grenjabúar væru á fótum, þó að sólin væri löngu sest. Hann sagðist ennfremur hafa orðið vitni að óskiljanlegri og villimannslegri athöfn, þar sem verurnar kveiktu elda og bauluðu hátt.

Það kom svo í ljós að frekari matarleiðangrar voru óþarfir, því björgunarfar kom og sótti skipbrotsmennina síðar þá nótt. Skipið sveif niður úr stjörnubjörtum himni hljóðlaust og uppljómað. Það lenti skammt frá hellinum. Eftir að allir leiðangursmenn voru komnir um borð lyfti það sér upp á ljósasúlu og sveif hring yfir dalinn. Það var ekkert lífsmark að sjá í greninu enda var athöfnin sennilegast búin og allar verurnar í fastasvefni.

Björgunarfarið dokaði andartak yfir dalsbotninum, ljósmagnið í kringum það jókst og það lyftist upp í endalausar víðáttur himingeimsins.

***   

Það voru ekki allar verurnar sofandi, lítil stúlka var á fótum og starði út um baðstofugluggann. Ljósasýningin var stórfengleg, þetta var eins og svífandi tré, mjótt að ofan og breitt að neðan, alsett sindrandi ljósum, gulum rauðum og bláum.

Þessi sýning hlyti að tengjast litlu rauðklæddu sveinunum sem hún hafði hitt nokkrum dögum áður, annað kom varla til greina. Þeir höfðu gefið henni gjöf, líklegast af því hún var svo prúð og góð. Það var líka ástæða þess að stóra skrýtna skessan hafði ekki étið hana, af því hún var svo góð. Litla stúlkan var viss um að stóra skessan væri mamma allra sveinanna.

Hún leit á skjöldinn sem henni hafði verið gefinn, hann var örugglega úr skíragulli. Það var eitthvað skrifað á skjöldinn, stúlkan gat ekki lesið það en hún vissi að það væri nafn skessunnar, einn sveinanna hafði sagt henni það.

Á skildinum stóð: GR 1 LA

Ég er kokkur frá kútter frá Sandi

(Hér er annað dægurlag sem ég var að leika með)

Ég er kokkur á kútter frá Sandi.
Ég fæ kjaftshögg hvern einasta dag.
Og ekki líður mér betur í landi
ef ég lendi við konuna í slag.
Hún er tvígild að afli hún Tóta
og ég tali‘ ekki um sé hún reið,
enda tek ég þá fljótast til fóta
því að flótti‘ er sú einasta leið.

Ég var ungur er Tóta mig tældi.
Okkar trúlofun samstundist birt.
Og í hjónaband því næst mér þvældi,
það var óveðursblandið og stirt.
Því þegar frá leið hljóp fjandinn í svínið
og er fædd voru ellefu börn,
þá var búið með gaman og grínið
– þá var grátur mín einasta vörn.

Því á kvöldin er kjaftshöggin dundu
svo í kjammana báða mig sveið
og tárin af hvörmum mér hrundu
þegar hræddur undir rúmið ég skreið.
Já, þá skemmti´ hún sér skjátan sú arna,
er hún skammirnar dynja á mér lét
meðan hímdi ég hundflatur þarna
og hreyfði mig ekki um fet.

En á kútternum allir sig krossa
er ég kem fram með viðbrenndan graut.
Og skipstjórans brástjörnur blossa
meðan bölvar hann rétt eins og naut.
Og ef kjötsúpan virðist með kekkjum
eða kjötbollan reynist of hrá,
þeir kenna slíkt helvítis hrekkjum
svo hefst skemmtunin vöngum mér á.

Ef ég lifað fæ lengur en Tóta
er hún leggur á eilífðarbraut,
skal ég dansa og daganna njóta
og elda dýrindis rúsínugraut.
En mig hryllir ef hittumst við aftur
er ég héðan af jörðinni fer,
nema einhver mér ókunnur kraftur
komi óðar og liðsinni mér

Vesturland, 1919.

Ég heiti Einar.

Ég er kokkur á kútter frá Sandi.

Líf mitt var algjört helvíti.

Ég sit hér í eldhúsinu mínu, fyrir framan mig er tóm grautarskál.  Ég horfi ofan í hana eins og ég geti fundið í henni einhver svör.  Af hverju var líf mitt svona?  Af hverju þessar röngu ákvarðanir?  Af hverju þessi mikla þjáning?

Að vera matsveinn á svona fiskiskipi er víst aldrei auðvelt.  Kosturinn sem menn fá um borð er eitt af því fáa upplífgandi í  daglegu harðræðispúli.  Það sem skipverjar setja ofan í sig vilja þeir að sé í lagi og jafnvel bragðgott.

En ég verð að viðurkenna að oft brást mér bogalistin þó ég gerði mitt besta.  Það kom fyrir að óvæntir kekkir væru í kjötsúpunni eða kjötbollurnar ekki alveg nógu vel steiktar.  Grauturinn brann líka við, svona af og til, og ekki batnaði bragðið á honum við það.

Þegar slíkir hlutir eiga sér stað á öðrum skipum er kokkunum bölvað í sand og ösku og þeir kallaðir „eiturbrasarar“ eða þaðan af verra.  En því láni var ekki að fagna á kútternum mínum.  Sú venja hafði skapast að ef menn voru ósáttir við matinn þá var ég kýldur.  Stöku sinnum var sparkað í mig, en oftast létu menn óánægju sína í ljós með kjaftshöggum.  Ég fékk nokkur slík á hverjum degi.

Skipstjórinn var engin undantekning.  Það var auðvelt að sjá ef hann var ekki sáttur við matinn því þá blossuðu augun hans eins og kaldranalegar stjörnur.  Þá gaf hann mér líka einn á kjammann.

Með slíka reynslu hefði margur hugsað að ég hefði átt að sækjast eftir annarri vinnu, en á Sandi var ekki um auðugan garð að gresja á þessum árum.  Ég tók því möglunarlaust við höggunum og spörkunum og reyndi að gera betur næst.

En það var ekki hlaupið að því.  Ég gerði mistökin af því ég var taugaóstyrkur og það ástand skapaðist ekki vegna því sem gekk á um borð heldur því sem beið mín í landi.

Það var konan mín, hún Tóta.

Ég var ungur þegar ég kynntist henni Tótu fyrst, varla nema sautján ára.  Þá tældi hún mig uppí til sín og viku síðar kom hún og sagðist vera ófrísk eftir sig.  Ég var nógu mikill blábjáni til þess að trúa því.  Trúlofunin okkar var samstundis birt og ég leiddur upp að altarinu stuttu síðar.

Hún Tóta var…hvernig er nú best að orða þetta?  Hún var mikil kona.  Meira en höfðinu hærri en ég og tvígild að afli enda fékk ég seinna að finna fyrir því.  Fyrstu árin okkar voru ekki svo slæm.  Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tímann elskað hana Tótu en ég hugsaði með mér að til voru verri örlög en að vera spyrtur við svona konu. 

Litla krílið fæddist og þó hann væri ekki vitund líkur mér þótti mér vænt um  hann eins og mitt eigið.  Annað barn bættist fljótt við en þegar hún Tóta mín gekk með þriðja barnið undir belti gerðist eitthvað.  Það var eins og einhver fjandi hlypi í hana.  Hún var nokkuð þjáð á þeirri meðgöngu, í fótum og baki, og hún byrjaði að drekka til að reyna að halda sársaukanum í skefjum.  Kannski var það skiljanlegt því á þessum árum voru varla nein lyf sem dugðu að einhverju marki. 

Drykkjan stöðvaðist ekki eftir að krílið fæddist, þvert á móti.  Tóta varð þunglynd og fáskipt eftir fæðinguna og drakk því enn meir.  En í stað þess að lyfta skapinu og gleðja fyllti brennivínið hana óstjórnlegu eirðarleysi og skapofsa.  Við í fjölskyldunni fengum að finna fyrir reiðinni þó ég reyndi að hlífa krílunum sem mest.  Tóta gekk því í skrokk á mér í hvert skiptið sem hún varð drukkin.  Þá breyttist hún skepnu með hnefa eins og sleggjuhausa.  Ég átti ekkert í hana, enda bæði minni og léttari.  Það litla sem ég gat gert var að leggja á flótta þegar kjammarnir mínir voru farnir að svíða illilega undan höggunum.  Þá skreið ég oft í felur undir hjónarúmið, þar náði hún ekki til mín.  Ég hafði líka neglt rúmið fast við gólfið þannig að hún átti ekki auðvelt með að svipta því ofan af mér.  Oft grét ég þarna undir rúminu, tárin mín síðasta vörn, en þau höfðu engin áhrif á Tótu.

Barsmíðarnar héldu því áfram, næsta dag eða þarnæsta.  Þegar að Tóta fékk nóg af þeim rauk hún á dyr og  tók upp samskipti við drykkjufélaga sína.  Það voru gamlir sjóarar, fyllibytturæflar sem bjuggu í nokkrum skúrum niður við flæðarmálið.  Oft hvarf hún til þeirra svo dögum skipti og við gátum varla ímyndað okkur hvað gengi á í þessum kofaræksnum.

Satt að segja vorum við, ég og krílin, oft fegin að vera laus við hana um stund.  Ég reyndi þá að gera mitt besta til að gleðja litlu skinnin.  Þá útbjó ég eitthvað góðgæti handa þeim, jafning eða kannski kakósúpu.  Ég hefði viljað gefa þeim rúsínugraut því hann þótti mér bestur.  En slíkt mátti ég ekki elda inní húsinu, Tóta hataði hann.  Hún sagði alltaf að rúsínugrautur minnti hana á spýju fulla af rottuskít og ef hún fann bara lyktina af honum varð hún bandbrjáluð.

Þessar fjarvistir konunnar minnar leiddu að sjálfsögðu til hins óhjákvæmilega og aftur varð hún ófrísk.  Það var varla að það rynni af henni á meðan á meðgöngunni stóð og mesta furða að krílið kom út heilt og óskemmt.  Reynda var því meiri hætta búin eftir að það kom í heiminn því skapbræði Tótu virtist aukast með hverju barni.  Þetta endurtók sig í þrígang á næstu árum og börnin þá orðin sex. 

Ég þurfti að vinna mikið til að ala önn fyrir þessa stóru fjölskyldu mína.  En alltaf kleip mig angistin þegar ég þurfti að vera lengi í burtu sérstaklega þegar ég var úti á sjó.  Mér þótti hræðilegt að vita af þeim í umsjá Tótu.  Þó ég reyndi stundum að fá vini og ættingja til að líta eftir þeim var það ekki nóg til þess að vernda þau frá þessum djöfli sem hafði hlaupið í móður þeirra.

Eitt skiptið þegar ég kom heim eftir nokkurra daga túr voru þau öll horfin.  Tóta hafði þá farið á agalegt fyllerí, algjörlega vanrækt minnstu krílin og lúbarið þau eldri.  Elsti pilturinn okkar viðbeinsbrotnaði og mörg hin voru illa farin eftir barsmíðar Tótu.  Kallað var á lækni og eftir það fjarlægðu yfirvöldin öll börnin af heimilinu.  Þau voru sett í fóstur og ég fékk aldrei að sjá þau framar, sama hvað ég reyndi.

En hún Tóta mín, hún var ekki lengi kona einsömul því hún hóf bara sama leikinn aftur.  Fleiri börn komu á næstu árum og alls eignaðist hún fjögur stykki.  Þegar það seinasta kom til hefðu flestir talið að hún væri kominn úr barneign.  Það er annars merkilegt hvað frjósemin getur plagað ólíklegasta fólk.

Ekki sinnti hún þessum fjórum sem voru í kotinu betur en þeim fyrri.  Sjálfur hafði ég stöðugar áhyggjur þegar ég var í burtu og var það ástæða þess hve mér gekk illa að einbeita mér um borð í kútternum.  Ég uppskar þar kjaftshögg og barsmíðar en það dugði þó ekki til að hugur minn viki frá börnunum litlu.

Þegar ég kom síðast í land  hafði Tóta ekki sést lengi.  Börnin voru umkomulaus á heimilinu, soltin og óhrein, það yngsta ekki fengið hreina bleyju í marga daga.

Þá fékk ég nóg.

Ég baðaði börnin, gaf þeim að borða og síðan fór ég aftur niður í kútterinn.  Ég dvaldi þar bara stutta stund og þegar heim var komið lagðist ég í stofusófann og beið eftir Tótu.  Hún skilaði sér eins og hún gerði alltaf.  Ég vaknaði við umgang um miðja nótt, fann sterka brennivínsstækju og heyrði þegar hún staulaðist inn í svefnherbergi.  Þar henti hún sér í rúmið og stuttu síðar var hún farin að hrjóta.

Ég fór á fætur snemma daginn eftir, sinnti börnunum og gaf þeim að borða.  Rétt fyrir hádegið var gargað innan úr svefnherbergi, Tóta var vöknuð til lífsins.  Þegar hún vaknaði með timburmennina vildi hún fá kaffið sitt og það strax.  Ég tifaði inn í svefnherbergi með uppáhellinguna og sykurkarið.

„Gjörðu svo vel ástin mín” sagði ég og lagði þetta hjá henni.  Hún tók kaffið sitt sætt en hún vildi alltaf fá að setja sykurinn sjálf.  Í þetta sinn skóflaði hún sjö skeiðum út í bollann sinn.  Ég taldi þær, hverja og eina einustu.  Líklegast myndi það duga hugsaði ég.

Ég vissi nefnilega hvar rottueitrið var geymt í kútternum og nú var talsvert af því komið ofan í sykurkarið.

„Djöfulsins óbragð er af þessu” fussaði Tóta eftir fyrsta sopann.

„Fyrirgefðu elskan, við áttum svo lítið kaffi að ég þurfti að drýgja það talsvert með kaffibætinum.”

“Andskotans aumingjaskapur” muldraði hún, en samt kláraði hún úr bollanum.

Ég var kominn aftur fram í eldhús þegar ég heyrði hana öskra. „Einar!  Djöfullinn hafi það, Einar!  Komdu hingað strax!”

Uppí hjónarúminu lá hún Tóta og var orðin eldrauð í framan.  „Andskotinn hafi það, hvað er að gerast!?”

Ég svaraði engu.

„Þú…þú gerðir eitthvað…settir eitthvað útí kaffið…!” Hún var farin að blána, út um munnvikin vætlaði blóðlituð froða.  Ég sagði samt ekki orð en fylgdist bara með.  Þá reisti hún tröllslega hnefana.  „Helvítis titturinn þinn!  Ég skal berja úr þér líftóruna!  Ég lumbra á þér þar til þú verður bara beinlaus skinnsekkur.  Ég skal…” Hún var orðin svarblá í framan.  Hún reyndi að rísa upp en þá skók hana hræðilegur krampi og það frussaðist blóð út um nefið á henni. 

„Þú sleppur ekki…þú sleppur ekki” var það seinasta sem ég heyrði hana stynja, síðan hætti hún að anda.

Næstu dagar á eftir liðu í einkennilegri móðu.  Engar athugasemdir voru gerðar við dauða Tótu og ekkert var rannsakað.  Hún hafði verið velþekkt sem mikil óreglumanneskja og það undraði flesta hvað hún hafði lifað lengi.  Kistulagningin var framkvæmd, síðan útförin og loks erfidrykkjan.  Ég hafði nóg að gera og í mörg horn að líta þannig að þetta leið allt framhjá mér á undarlegum hraða.  Í lok útfaradagsins hafði ég komið börnunum fyrir hjá kunningjum og sat einn í kotinu okkar, ennþá klæddur í sparifötin.

Þá fann ég það loksins, þennan óstjórnlega létti eins og þungu fargi hafði verið velt af öxlunum mínum.

Ég var frjáls, raunverulega frjáls í fyrsta skiptið frá því ég komst til manns.  Þetta var ótrúlegt, yndislegt, stórkostlegt!  Í fyrsta skiptið gæti ég gert það sem ég sjálfur óskaði.  Ég gæti notið daganna, ég gæti dansað, ég gæti…ég gæti…

Ég spratt á fætur og þaut inní eldhús.  Ég gæti eldað rúsínugraut, dýrindis rúsínugraut án þess að hafa minnstu áhyggjur að verða barinn fyrir það eitt á mínu eigin heimili.  Það var einmitt það sem ég gerði, ég bjó til dísætan rúsínugraut og ekki sparaði ég rúsínurnar.  Ég held ég hafi klárað heilann pakka!

Síðan fyllti ég stærstu skálina mína af þessum stórkostlegu krásum og settist við eldhúsborðið.  Ég setti kanil út á grautinn, fullt af kanil.  Ég hafði aldrei mátt nota hann þegar Tóta var nærri því hann minnti hana alltaf á neftóbak.  En nú var Tóta komin undir græna torfu og ég jós gómsætum kanilnum yfir grautinn minn þar til hann var farinn að líkjast kakósúpu.

Eftir það skóflaði ég þessu í mig af einskærri ánægju.  Þetta var yndislegt, þetta var bragðið af sönnu frelsi.

Þegar ég var búinn sat ég saddur og sæll og velti því fyrir mér hvað framtíðin myndi bera í skauti sér.  Það var svo margt sem kom til greina, ótal möguleikar og lífsstefnur.  En samt…það var samt eitthvað ekki rétt.  Það var eitthvað sem mér fannst að ég hefði átt að gera, en ég kom því ekki fyrir mig.  Var það eitthvað í sambandi við börnin?  Eða jarðarförina?  eða…eða…

***   

Nú horfi ég niður í tóma grautarskálina, síðan upp á sykurkarið sem stendur á hillu, síðan aftur niður í skálina.  Hafði ég ekki örugglega tæmt sykurkarið eftir að hún Tóta mín dó?  Það eru engin svör að finna í grautarskálinni.  Ég var ekki viss, það hafði verið svo mikið að gera, ég er því ekki viss.

Nú finn ég fyrir einhverju innan í mér, eins og stór gráðugur ormur sem væri að sprikla í maganum.

Guð minn góður!  Hvernig gat þetta gerst? Af hverju tók ég ekki eftir þessu?  Hefði ég ekki átt að finna bragðið af…ó nei, kanilinn!  Kanilinn hafði falið bragðið af eitrinu

Ég horfi upp, það var eitthvað agalegt svartnættismyrkur að opnast fyrir augunum á mér.  Þetta er hræðilegt endalaust og tómt myrkur  Nei…ekki tómt.  Það var eitthvað inn í myrkrinu, eitthvað stórt og rotið, með kreppta hnefa eins og sleggjuhausar.

Nú finn ég fyrir þeim, höggunum, þungum og miskunnarlausum, á kjammann og kroppinn.  Ég get hvergi flúið, hvergi farið, það var ekkert rúm til að skríða undir.

„Æ nei!  Ekki!  Tóta!  Tóta!

TÓTAAAAA!!!!!“

Get ég aðstoðað?

Einu sinni skrifaði ég þetta þegar ég var að leika mér með þéringar. Þær eru afskaplega skemmtilegar, finnst yður ekki?

‘Ding-a-ling’.

Konan leit upp frá afgreiðsluborðinu. Við dyrnar stóð virðulegur herramaður í gráum vetrarfrakka, hann hélt á hattinum sínum.

„Get ég aðstoðað?” spurði hún og brosti sitt besta.

„Jú þökk fyrir” svaraði maðurinn og gekk nær. „Mig vantaði húfu”.

„Þér hafið sannarlega komið á réttan stað herra minn, vér höfum nóg af þeim”.

„Já, einmitt, það grunaði mig þegar ég sá skiltið utan á verslun yðar. Annars, með leyfi að spyrja, hví heitir verslunin Hoppandi húfur? Eru höfuðfötin eitthvað ókyrr á kollum viðskiptavinanna?”

Hún hló léttilega. „Síður en svo herra minn, húfurnar sitja sem fastast. Það sem vér eigum við er að allir vorir viðskiptavinir eru hoppandi kátir er þeir hafa fengið á sig vorar öndvegis húfur”.

„Aha, ég skil. Ætli sé þá ekki best að ég gangi í þeirra flokk”.

„Það gleður mig að heyra það. Hvað höfðuð þér í huga? Eins og þér sjáið er úrvalið umtalsvert” hún vísaði til húfanna er stóðu á hillum allt um kring.

„Hmm” sagði herramaðurinn íbygginn. “Eitthvað mjög hlýtt trúi ég, mér skilst að von sé að veður kólni næstu daga og hatturinn minn, jafn góður og vandaður og hann er, muni ekki veita mér nægjanlegt skjól”.

„Já einmitt” sagði konan við afgreiðsluborðið, „Ég sá það í fjernsýninu í gærkveldi að veðurathugunarmaðurinn var víst að spá útsynningi með talsverðu frosti. Það er víst eins gott að vera viðbúin þeim veðrabrigðum”.

„Nákvæmlega. Því hef ég ákveðið að fjárfesta í skjólgóðum hlífðarfatnaði. Hverju mælið þér með?”

„Ja, eins og ég sagði hér áður herra minn, þá er úrval vort talsvert”.

Maðurinn horfði í kring um sig á húfurnar er þöktu alla veggi. „Hm, ekkert of litríkt trúi ég, það myndi vart hæfa manni eins og mér”.

„Ég er yður fullkomlega sammála. Mætti ég kannski benda á úrvals línu vora, hún er hérna” hún vísaði til hillunnar sem var á veggnum beint fyrir aftan afgreiðsluborðið, þar voru margar myndarlegar húfur á sýningarstatífum. „Þessi gráa hérna til dæmis, hún færi afskaplega vel við frakkan yðar”.

„Þér segið nokkuð. Mætti ég fá að prufa hana?”

„Sjálfsagt herra minn” konan tók húfuna af statífinu og rétti manninum. Hann dró hana yfir höfuðið og niður fyrir eyru, hún passaði mjög vel.

„Mikið er hún mjúk og þægileg”.

„Vissulega er hún það, og svo einangrar hún svo vel”.

„Afsakið, hvað sögðuð þér?”

„Hún einangrar svo vel”.

Hann lyfti húfunni frá öðru eyranu, „Fyrirgefið þér ég heyrði ekki til yðar, húfan einangrar svo vel”.

„Ég sagði að…eh…hún fellur svo vel yfir eyrun”.

„Já mikið rétt, aldeilis úrvals höfuðfat” hann tók húfuna ofan og skoðaði innan í hana. „Hvað er nú þetta? Hér er fangamarkið BG. Það er ekki skammstöfun á versluninni yðar?”

„Nei herra minn, svo er ekki. Úrvalshúfur vorar eru handgerðar af handlögnum hannyrðakonum. Þær sauma stafina sína innan í húfurnar því þær eru stoltar af sköpunarverkum sínum. BG er Bergrún Guðmundsdóttir, sérdeilis lagin og vandvirk ung kona.  Reyndar býst ég við að hún muni breyta þessu fangamarki því hún gekk í það heilaga fyrir mánuði síðan og heitir nú Bergrún Guðmundsdóttir Kamban”.

„Nú?” sagði maðurinn og virtist forvitinn. „Afsakið hnýsnina, en hvaða Kamban var það sem ungfrúin giftist?”

„Jónas Kamban”.

„Jónas Kamban? Sá sem á og rekur Kambans Kompúters, sonur Kambans Landyfirréttardómara?””

„Sá hinn sami”.

„Ja mér þykir sem unga frúin hafi aldeilis komið ár sinni vel fyrir borð, Kambansættin er ein sú virðulegasta hér í bæ. Þér hafið sennilegast misst góðan starfskraft”.

„Nei alls ekki herra minn. Frú Bergrún hefir tjáð mér að hún vilji endilega halda hannyrðunum áfram, enda hefur hún mikið yndi af þeim”.

„Ég skal segja ykkur það. Kambans-húfa” sagði maðurinn og horfði á höfuðfatið eins og það væri ofið með gullþráð. “Það væri ef til vill hægt að bródera K inn í húfuna, til að gera það offisíelt?”

Konan virtist örlítið hneyksluð, „Herra minn, ég vildi bara benda yður á að þó að prjónakonan beri nafn Kambans þá færum vér síst að öllu að nota það oss til framdráttar. Frú Bergrún og herra Kamban yrðu sennilegast ekki ánægð með það. Auk þess er þetta er ekki Kambans-húfa, þetta er Hoppandi-húfa”.

„Ég skil, fyrirgefið mér” sagði maðurinn afsakandi og auðmjúkur, „Þetta er alveg rétt hjá yður, en samt…” Hann velti vöngum andartak. “Vitið þér, ég held ég slái til. Hvað kostar húfan?”

„Tvo og hálfan ríksdal” svaraði konan.

„Hm, það er nú örlítið bratt”.

„Gæði og gott handverk kostar ávallt sitt”.

„Já satt segið þér, maður á víst ekki að horfa framhjá því. Auk þess er þetta allsérstök Kamb…ég á við, Hoppandi-húfa. Jú, jú, ég greiði umsamið verð”.

„Gott að heyra herra minn. Viljið þér greiða út í hönd, eða hafið þér spjald?”

„Spjald þakka yður fyrir”.

„Ef þér vilduð þá setja spjaldið í spjaldaflestrartæki vort. Munið þér persónulega öryggistölurnar yðar?”

„Að sjálfsögðu. Ég er stálminnugur”. Hann sló inn númerið sitt og greiddi þar með fyrir húfuna.

„Viljið þér að ég pakki henni inn?” spurði konan.

„Setjið hana bara í pappírssekk, það nægir mér”

Konan gerði það og afhenti manninum húfuna sína.

„Kærar þakkir fröken, og þökk fyrir góða þjónustu”.

„Þökk sömuleiðis, og komið aftur sem fyrst”.

„Ég geri það. Þakka yður fyrir”.

Hann laut aðeins höfði áður en hann setti upp hattinn og gekk út.

‘Ding-a-ling‘.

Bjössi á mjólkurbílnum

Hver ekur eins og ljón
með aðra hönd á stýri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Bjössi á mjólkurbílnum.

Hver stígur bensínið
í botn á fyrsta gíri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
hann Bjössi kvennagull.

Við brúsapallinn bíður hans mær,
Hæ, Bjössi keyptirðu þetta í gær?
Og Bjössi hlær, ertu öldungis ær,
alveg gleymdi’ ég því.
Þér fer svo vel að vera svona’ æst
æ, vertu nú stillt ég man þetta næst.
Einn góðan koss, svo getum við sæst á ný.
 Hann Bjössi kann á bil og svanna tökin.
Við brúsapallinn fyrirgefst mörg sökin.

Hver ekur eins og ljón
með aðra hönd á stýri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Bjössi á mjólkurbílnum.

Hver stígur bensínið
í botn á fyrsta gíri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
hann Bjössi kvennagull.

Blönduhlíð. Skagafirði, 1956

Hann átti veginn.

Víboninn hentist eftir mölinni eins og grenjandi ljón.  Hann fór í loftköstum yfir hæðirnar, ýlfraði í beygjunum.    Við hverja holu þegar trukkurinn lyftist frá malarveginum mátti heyra  þunga dynki.  Það voru fullir mjólkurbrúsarnir aftaní  þegar þeir smullu aftur á vörubílspallinn.

Frammí sat Bjössi, önnur höndin á stýri, sixpensarinn settur á ská, sígaretta danglandi úr munnvikinu,   Hann var gæi.  Hann var eins og Róbert Mitchum.

 Bjössi hafði séð Róbert í bíóinu, myndin hét Þrumubrautin.  Þar hafði Mitchum líka keyrt trukk eins og hann, en það var enginn helvítis mjólkurbíll.  Róbert var með bílinn fullan af sprútti og löggan var á hælunum hans.

Stundum ímyndaði Bjössi sér að brúsarnir hans væru fullir af landa og sýslumannsfjandinn væri á eftir honum.  Ekki þar fyrir að sýslumaðurinn hefði nokkuð í hann þegar hann var kominn með Víboninn í fjórða á beinu köflunum.

Framundan sá hann brúsapallinn við Brúnastaði.  Það stóð einhver við pallinn og beið.  Andskotinn, hugsaði Bjössi, var þetta hún Anna?  Það var varla að hann nennti að eiga við hana í dag.

Hann hemlaði trukknum, brúsarnir skröltu og köstuðust til aftan á pallinum um leið og hann nam staðar.  Bjössi stökk út.  Hann var klæddur svörtum buxum og bómullarskyrtu sem einu sinni hafði verið hvít.  Hann passaði sig að hafa skyrtuna hneppta frá niður á bringu, stelpurnar höfðu gaman af því.

„Sæll Bjössi!“ hrópaði Anna í gegnum vegarykið sem bíllinn hafði þyrlað upp.

„Sæl“ sagði Bjössi út um annað munnvikið og gerði sig líklegan að vippa sér upp á brúsapallinn.  En hann sá að Anna ætlaði að segja eitthvað meira, hún hélt fast um annað svuntuhornið sitt í augljósum spenningi.

Æ hún er ekki slæm stelpa, hugsaði Bjössi, dálítið litlaus og óspennandi.  Undir svuntunni var hún í blómakjólnum sem hann hafði einu sinni sagt að honum þótti fallegur.  Það var fyrir tveimur árum og stelpan hafði bætt talsvert við sig síðan.  Kjólinn stóð henni eiginlega inn að beini, samt tróð hún sér í hann.

„Komstu með það?“ spurði hún dálítið andstutt.

„Kom ég með hvað?“

„Efnið auðvitað, ég bað þig um að kaupa það“ svaraði hún með leiðinda sífri í röddinni.

Bjössi gat ekki annað en hlegið, „Ertu öldungis ær?  Ég steingleymdi þessu.“

„Gleymdirðu?“ vældi Anna og roði hljóp upp í feitar kinnarnar hennar.  „En…en þú lofaðir…“

Bjössi sá strax hvert samræðurnar voru að stefna.  Hann tók út úr sér rettuna, greip um mittið á stelpunni og dró hana þétt að sér.

Hann spýtti tóbakskorni og sagði: „Veistu það elskan, það fer þér vel þegar þú verður svona æst.“

„Æ Bjössi“ vældi hún en hann fann hvernig það var að slakna á henni. 

„Svona Anna mín, ég man þetta næst, ég lofa því“ sagði hann lágt og hallaði sér enn nær.

„Ertu…ertu nokkuð búinn að eyða peningnum sem ég lét þig fá“? stamaði hún.

„Auðvitað ekki elskan“ laug hann, „Treystirðu mér ekki?  Svona nú, einn koss og þá erum við sátt, er það ekki.“

Hann kyssti hana, djúpum kossi um leið og hann renndi höndunum niður eftir rassinum hennar.

„Ó Bjössi“ stundi hún þegar kossinum sleppti loks, „E…ertu nokkuð að flýta þér?“

Hann ýtti henni frá sér og brosti sínu Róbert Mitchum brosi, „Allt vitlaust að gera elskan“ sagði hann um leið og hann stakk sígarettunni aftur upp í sig.  „Ég þarf að vera kominn út á Básenda fyrir hádegi, annars verður helvítið hann Guðmundur brjálaður.“  Hann stökk upp á brúsapallinn og slengdi mjólkurbrúsunum upp á vörubílinn.  Síðan hoppaði hann niður og henti sér aftur undir stýrið.

„En þú…þú manst að…“ byrjaði Anna.

„Engar áhyggjur elskan“ svaraði Bjössi um leið og hann skellti aftur hurðinni, „Ég kem með þetta dót handa þér.  Ég lofa því.“ 

Hann setti bílinn í gang, rak hann í fyrsta gír og steig bensínið í botn.  Víboninn gargaði eins og blóðþyrst villidýr í myrkum skógi.  Bjössi spólaði af stað og skildi stelpuna eftir í rykmekki.

Hann kunni tökin á þeim, stelpunum og bílunum.

Hann var gæi.  Hann var eins og Róbert.

Hann átti veginn.

Andri á hálum ís.

(Ég er ekki mikið fyrir glæpasögur eða sögur úr undirheimum Reykjavíkur. En ég ákvað samt að gera smá tilraun.)

„Djöfulsins fokk“, hugsaði Andri um leið og hann steig út af barnum og sá mennina þrjá standa þar.

Það var skítakuldi, snjódrífur fuku yfir Austurvöll og Andri dró dúnúlpuna þéttar að sér. Það var ekki bara kuldinn í loftinu sem gaf honum hroll heldur líka þessir þrír gaurar sem stóðu fyrir utan Borgina og störðu á hann. Tveir þessara manna voru risastór steratröll og hann kannaðist eitthvað við þá. Einn hét Geir, eða Gústi, sköllóttur andskoti með slöngutattú sem sem hringaði sig um skallann á honum eins og olíuborið hár. Hinn var með skegg eins og strákústur, kartöflunef og heimskulegt augnaráð.

Á milli þessara vöðvafjalla var minni maður í stórum leðurfrakka, dökkhærður og með hvöss augu. Andri þekkti þennan mann vel, alltof vel.

„Hey, Robbi, kominn aftur heim?“ sagði Andri og reyndi að hljóma glaður.

„Blessaður Andri,“ svaraði maðurinn með hásri röddu.

„Hvernig var í Tyrklandi?“ spurði Andri eins og það væri einhver brandari.

„Ég sat inni í helvítis rottuholu,“ sagði maðurinn í leðurfrakkanum, „Hvernig heldur þú að það hafi verið?“

„Æ, já, fyrirgefðu,“ svaraði Andri og brosti mjög vandræðalega. Hann hafði ekki séð Robba í fimm ár og þetta var greinilega ekki rétta aðferðin til að endurnýja kynnin. Þetta hafði aldrei verið náin kunningsskapur en eins og steratröllin tvö hafði Andri eitt sinn unnið fyrir Robba.

Þeir kölluðu hann „Róbert ost“ þegar hann heyrði ekki til og á sínum tíma var hann umsvifamesti dílerinn í bænum. Hann var ekki bara í dreifingunni, hann flutti líka stöffið inn, rak bílskúrsverksmiðju til að vinna og pakka og sá um öll peningamálin sjálfur. Það var enginn í dópinu með tærnar þar sem Róbert ostur var með hælanna.

Andri var ekkert að díla að ráði og ekki var hann handrukkaradjöfull eins og þessir tveir sem stóðu sitt hvoru megin við ostinn. Andri hafði verið snattari. Hann sótti burðardýr út á flugvöll, kom þeim inn á hótel, keypti handa þeim Microlax og fór með dópið í pökkun. Svo fór hann í bankann, borgaði leiguna af bílskúrnum, sá um að öll tæki voru í lagi, sótti pítsur þegar menn þurftu að vinna frameftir eða vodka ef þeir voru að skemmta sér. Þetta voru ótal smáverk og hann hafði verið í þeim flestum.

En svo hvarf Róbert ostur, gufaði bara upp og engin vissi neitt í heila viku. Síðan komu fréttir um að hann hafði verið tekinn í einhverju krummaskuði á landamærum Tyrklands og nokkru síðar komu aðrar fréttir að hann hafði verið dæmdur og fengið tólf ára dóm. Eftir það heyrðist ekkert í honum.

Auðvitað fór allt úr skorðum með bissnessinn þegar að höfuðpaurinn var horfinn. Ef hann hefði verið nappaður hérna heima á Íslandi hefði þetta ekki verið neitt mál. Þó að menn sætu inni gátu þeir alveg haldið áfram að starfa, með gemsum eða bara heimsóknum frá samstarfsmönnum. En í þessu afdalafangelsi þar sem Róbert var vistaður var hann algjörlega sambandslaus, hann fékk ekki einu sinna að senda SMS.

Í Reykjavík var nóg af körlum tilbúnir til að stökkva inn í eyðuna sem Róbert skildi eftir sig og þó það urðu einhver slagsmál til að byrja með voru línur fljótar að skýrast.

„Þú er búinn að vera soldið lengi í burtu,“ sagði Andri vandræðalega og tvísté fyrir framan mennina þrjá. Steratröllin horfðu á hann eins og hann væri skordýr.

„Já,“ svaraði Róbert, „ég hefði verið lengur en fékk óvænta lausn þegar þessi djöfulsins skítakamar var orðinn yfirfullur.“

„Heppinn“.

„Heldurðu það?“

Andri reyndi að brosa en það var erfitt. „Og er kallinn að koma sér fyrir aftur?“

„Maður verður að reyna. Ég hef verið að hitta gamla vini, innheimta gamlar skuldir“ Róbert glotti og Andri sá að það vantaði nokkrar tennur, hann var ekki svona fyrir fimm árum. Hann sá líka að Robbi hafði gránað helvíti mikið á svo stuttum tíma.

„Ég frétti að þú værir að vinna á dekkjaverkstæði“ hélt Robbi áfram.

„Eh … já“ stamaði Andri.

„Bara hættur í bransanum?“

„Já … ja ég var aldrei neitt sérstaklega góður í þessu Robbi og svo bara … svo bara þurfti ég að hætta“.

„Jahá“. Róbert tók upp sígarettupakka og stakk uppí sig einni rettu. „Þú ert þá ánægður í gúmmíinu?“

„Þetta er fín vinna. Ég er ekki lengur inná verkstæðinu, ég er farinn að selja og afgreiða“.

„Já sæll, minn bara farinn að klifra metorðastigann?“ Hann dró kveikjara úr vasanum og tendraði blysið.

„Þetta er ekkert slæmt“ svaraði Andri vandræðalega, „örugg vinna“.

„Einmitt“ sagði osturinn og blés frá sér reyk. „Þú skuldar mér Andri“ sagði hann skyndilega.

„Ha? Ég?“ Andri reyndi að hljóma steinhissa en þetta var rétt hjá honum, tæknilega séð.

Áður en Róbert fór burt fyrir fimm árum skildi hann dálítið eftir hjá Andra, svona til varðveislu í smástund. Þrjú kíló af kóki, tvö þúsund E-töflur og einhverja skammta af sýru. Þegar að Robbi hvarf svo ofan í svartholið í Tyrklandi vissi Andri ekki sitt rjúkandi ráð um hvað hann ætti að gera við dópið. Hann var enginn díler eða peningakall, hann var bara snattari. Samt gat hann ekki legið með allt þetta magn og þegar það var augljóst osturinn kæmi ekki til baka í bráð reyndi strákurinn að koma því frá sér með því að selja það.

Það var samt ekki auðvelt því Andri hafði aldrei selt neitt að ráði, ekki beint. Hann náði að koma einhverju í verð, en sumir ætluðu að borga honum seinna eða heimtuðu einhverja afslætti sem hann kunni engin deili á. Það bætti ekki úr skák að hann var yfirleitt útúr kókaður á þeim tíma, hann var með svo mikið efni og freistingin of sterk.

Hann hafði samt einhverjar millur á milli handanna og í nokkra mánuði lifði Andri hátt, keyrði á flottum bílum, bjó á hótelum og óð í píkum. Dagur og nótt hættu að skipta máli, stuðið var stöðugt og endalaust. En svo gerðist það á björtum sumarmorgni að hann vaknaði skítblankur, skítþunnur og skjálfandi af fráhvarfi. Partýinu var lokið.

Þá brölti Andri á fætur, stóð óstöðugur fyrir framan skjannabjartan stofugluggann titrandi í tremmanum og hann sagði; „Fokk it, ég nenni þessu ekki lengur“.

Það merkilega var að hann stóð við þessa ákvörðun þó hún væri sú erfiðasta sem hann hafði nokkru sinni tekið. Hálfu ári síðar var hann alveg edrú og farinn að vinna í Dekkjahöllinni. Hann hafði sagt skilið við gamla lífið, gamla vesenið og aldrei litið til baka.

En nú var Róbert ostur kominn til landsins.

„Ég? Skulda ég?“ hélt Andri áfram.

Robbi dró djúpan smók af sígarettunni. „Ef ég man rétt þá skildi ég eftir talsvert af stöffi hjá þér“, sagði hann með sinni hásu en ógnandi röddu.

„Ha? Já það, stöffið. Það er komið svo langt síðan að ég var nærri búinn að gleyma því“. Andri reyndi að brosa, virðast afslappaður og kærulaus, allt misheppnaðist það. „Stöffið já, stöffið. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því, það er á góðum stað“.

„Er það? Gott að heyra“ sagði Robbi og glotti, „Strákarnir voru eitthvað stressaðir út af þessu“. Hann átti við handrukkarana tvo sem stóðu enn tilbúnir sitt hvoru megin við hann.

„Já, nei, ekkert stress Robbi minn“.

„Fínt, þá skaltu vísa mér á það, núna,“ hann glotti enn breiðar og þá fattaði Andri hvað var um að vera. Robbi var engin vitleysingur, auðvitað vissi hann að dópið var löngu farið og peningurinn líka, hann hafði jú verið í burtu í fimm ár. Hvað hefði Andri annars átt að gera við allt þetta efni? Leggja það inná dópreikning í Landsbankanum?

Nei, það var óskrifuð regla í þessum bransa að ef menn áttu efni þá seldu þeir það og ef þeir áttu pening þá eyddu þeir honum. Þetta vissi Róbert ostur mætavel og það var ekki tilgangur þremenninganna að fá eitthvað til baka, tilgangurinn var að ganga í skrokk á Andra, það var aðalmálið.

Róbert hafði verið lengi í burtu, allt það veldi sem hann hafði byggt sér hrunið. Eina leiðin til að endurheimta það var með hörkunni. Þeir myndi berja Andra, kannski drepa hann, það skipti ekki máli því þeir ætluðu að senda skilaboð. Allir skildu vita að Róbert væri kominn aftur og hver sá maður sem skuldaði honum yrði að borga. Það skipti ekki máli hvort það væri með peningum, dópi eða blóði, skuldir skyldu greiddar.

„Viltu fá það núna?“ sagði Andri, „ Ekkert mál kallin,“ hann tók skref í átt að Pósthússtræti, „Við þurfum bara að fara …“ Andri tók skyndilaga á rás, hentist framhjá þremenningunum og hljóp út á Austurvöll. Hann þaut yfir völlinn, framhjá kirkjunni og út á Lækjargötu. Hann horfði örvæntingarfullur í kringum sig, hvar var helvítis löggan þegar hann þurfti á þeim að halda? Það var ekki kjaftur á ferli, jafnvel túristarnir héldu sig inni í þessi skítaveðri.

Hann leit um öxl og sá handrukkarana koma hlaupandi fyrir hornið á Skólabrúnni, Róbert fylgdi þeim fast á eftir.

Andri tók aftur á rás suður eftir Fríkirkjuveginum. Hann var alltof berskjaldaður þarna, engin staður til að fela sig. Hann horfði vestur yfir tjörnina á trén við Tjarnargötuna og í gamla kirkjugarðinum, hann þyrfti að koma sér þangað yfir, þá kannski ætti hann séns. Tjörnin var frosin og ísinn virtist traustur þannig að hann ákvað að stytta sér leið.

Hann hljóp út á tjörnina og sá strax eftir því. Það var þunnt bleytulag ofan á klakanum og fljúgandi hált. Andri datt samt ekki, hann náði jafnvæginu og byrjaði að fikra sig yfir ísinn með því að draga lappirnar, en mikið djöfullinn fór hann hægt.

Hann leit við og sá þá að það skipti kannski engu máli. Steraboltarnir tveir voru líka komnir út á ísinn í vandræðalegri eftirför því þeir áttu báðir fullt í fangi með að standa uppréttir. Þeir héldu stífum örmunum út frá síðunum eins og klaufskir línudansarar og reyndu eftir fremsta megni að detta ekki. Það tókst ekki betur en svo að löppunum var skyndilega kippt undan öðrum þeirra og hann féll á rassgatið með talsverðum dynk. Hann reyndi að standa upp, komst hálfa leið og datt þá aftur. Félagi mannsins stóð við hliðina á honum, vaggaði óstöðugt eins og dópuð hæna og það var ekki séns að hann reyndi að hjálpa félaga sínum því þá hefði hann dottið líka.

Auðvitað átti Andri að nota tækifærið til að sleppa á meðan þessir tveir uxar voru að reyna að fóta sig, en þetta var bara svo fáránlegt að hann stóðst ekki mátið. Hann stoppaði og skautaði aðeins nær þeim.

„Hvað er þetta?“ kallaði hann hæðnislega, „Eigið þið í einhverjum erfiðleikum strákar?“

Þessi sem var ennþá standandi, það var sá með tattúið á skallanum, snöggreiddist. Hann henti sér í áttina að Andra með báðar krumlurnar útglenntar. Andri skautaði bara aðeins til hliðar, gæinn flaug framhjá honum og small á smettið á ísnum.

„Djöfulsins klaufar, læruðið þið aldrei að skauta þegar þið voruð litlir?“

Hinn náunginn orgaði að bræði, hann stóð allt of hratt upp, fæturnir flugu aftur undan honum og í þriðja skiptið hlammaðist hann á rassgatið. Boran hlyti að vera orðin aum eftir öll þessi átök.

„Helvítis fávitar!“ var öskrað yfir ísinn, það var Robbi.  Hann kom hratt yfir og virtist ekki jafn óstöðugur og vinirnir tveir. Andri ákvað því að drullast í burtu.

„Á maður að þurfa að gera þetta allt sjálfur?“ Hann skautaði að rasssára manninum og reyndi að draga hann á lappir. Það var alveg vonlaust, gæinn var sleipari en vaselínþakin víbrator. „Komdu og hjálpaðu mér!“ kallaði Robbi til slönguskallans. Hann fikraði sig yfir til hinna tveggja og var í þann mund að fara að hjálpa stjóranum þegar það heyrðist hár brestur í ísnum og augnabliki síðar voru allir þrír horfnir.

Andri stoppaði aftur og starði. Gat það verið að hann væri svona heppinn?

Það hafði myndast talverð vök á ísnum, félagarnir þrír höfðu allir dottið ofaní. Handrukkararnir stóðu strax upp, þeir hóstuðu og spúðu eins og hvalir, vatnið náði þeim á mið læri enda var tjörnin grunn þarna. Róbert ostur var hinsvegar hvergi sjáanlegur.

Hvað varð um manninn? Andri fikraði sig nær enda virtust tröllin ekki líkleg til átaka. Hann sá einhverja hreyfingu við brúnina á vökinni og fór enn nær, þetta var hendi sem lá undan ísnum. Einhvernvegin hafði Robba tekist að renna sér undir klakann og hann komst ekki upp. Kannski var það þessi níðþungu leðurfrakki sem hélt honum niðri eða ef til vill rak hann skallann í ísinn þegar hann féll. Hver sem ástæðan væri myndi hann ekki endast lengi svona.

„Hva? Ætlið þið ekki að ná manninum upp?“ spurði hann steraboltana en þeir virtust ekki fatta hvað væri að gerast og horfðu aulalega í kringum sig.

„Hann drukknar!“ öskraði Andri.

„Hver?“ spurði slöngutattú eins og fáviti.

„Andskotans vitleysingar!“ Andri kastaði sér á hnén og greip um úlnliðinn á Robba. Hann byrjaði að draga en mikið helvíti var hann þungur. Þessi frakki var heilt tonn þegar hann var blautur. Andri gafst ekki upp, hann tók þéttingsfast í handlegginn og togaði með öllum þeim krafti sem hann átti til. Öxlin á Robba kom í ljós, síðan höfuðið og loks restin af honum þegar Andra tókst að drösla honum uppá ísinn.

Hann var mjög fölur, eiginlega hvítur og varirnar hans farnar að blána. Andri velti honum á hliðina, hann hóstaði rosalega og gubbaðu upp gosbrunni af tjarnarvatni og dró andann með erfiðleikum.  Nokkrum sekúndum síðar var hann farinn að anda eðlilega og hann opnaði augun.

„An … And …“ hann reyndi að segja eitthvað en tennurnar í honum glömruðu svo að það skildist ekki orð.

„Slakaðu á, ég náði þér, það er allt í góðu“ svaraði Andri. Gegnblautur leðurfrakkinn hans Robba var algjör kælipoki, Andri dró flíkina af honum, fór sjálfur úr dúnúlpunni og vafði utan um hann.

„And … And … Andri“ sagði osturinn milli skjálftahrina.

„Hvað?“

„Ta … ta … takk“.

„Ekkert mál“.

„Vi … við … við erum þá kvittir, ókei?“ Hann leit yfir til handrukkaranna sem höfðu klifrað uppúr vatninu og stóðu sjálfir skjálfandi á ísnum. „Við látum sku … skuldina eiga sig í þetta sinn, en næst …“.

„Hey!“ sagði Andri og stóð upp, skyndilega reiður og óhræddur við þennan skjálfandi aumingja sem sat flötum beinum á ísnum. „Það verður ekkert næst. Ég sagði þér að ég er hættur, búinn, farinn, ég sný ekkert aftur“. Hann beygði sig niður og horfði í blóðhlaupin augun á Róberti. „Núna skulum við kveðjast, við þurfum aldrei að hittast aftur og þú lætur mig í friði það sem eftir er“.

Robbi opnaði munninn eins og til þess að svara, en lokaði honum aftur.

„Gott“ sagði Andri, hann klappaði dópsalanum á öxlina og stóð upp. „Þú mátt eiga úlpuna“.

Síðan snéri hann sér við, stakk höndunum í vasana og renndi sér í áttina að Tjarnargötunni.

Martine Besterikk og perlurnar

(Martine er svikahrappur og ein af persónunum úr bókinni “Lavander á ferð”. Hérna er sjáfstæð saga um hana)

Snemma morguns var Martine á hnjánum niðrí í kjallara að skúra. 

Hún einbeitti sér þó lítið að skúringunum því perlur áttu hug hennar allan.  Það hana skipti litlu máli hvort gólfin væru vel eða illa skúruð, það var ekki hennar æðsta markmið í lífinu. Þar að auki ætlaði hún ekki að stunda þetta mikið lengur.  Hún þyrfti bara að ná perlunum og gæti síðan hætt þessu púli fyrir fullt og allt.

Ef perlurnar sem hún var að sækjast eftir hefðu verið venjulegar eða settar í einhvern lítinn skartgrip, eins og hring eða eyrnalokka, hefði það varla verið ómaksins virði.  En það sem hún hafði augastað á var allt annað og mun stærra.

„Hvað er að sjá þetta?“ spurði frekar óvingjarnleg rödd fyrir ofan hana.  „Hvað lærðir þú að skúra stelpa?  Kanntu það yfirleitt?“

Martine leit upp, grámyglulegt, hvasst og gagnrýnið andlit undirvinnukonunnar hékk yfir henni.

„Fyrirgefðu frú,“ sagði Martine og tók harðar á skrúbbnum.  Eins gott að láta lítið fyrir sér fara.  Ekki vildi hún að undirvinnukonan færi að kalla á yfirvinnukonuna sem myndi þá hugsanlega kalla á ráðskonuna!

Goggunarröðin á þessum heldra manna heimilum var hrikalega flókin og gat verið skaðleg þjófum og svikahröppum eins og henni.  Martine skrúbbaði áfram að krafti í nokkrar mínútur en gjóaði síðan augunum til hliðar.  Undirvinnukonan hafði ákveðið að gagnrýni hennar hafði skilað árangri og  farið til þess að ónáða annað þjónustufólk.

Martine leit upp, þarna var glugginn út á götu sem hún var að fylgjast með og ástæða þess að hún var þarna á hnjánum með skrúbbinn í höndunum.  Kjallarinn var besti staðurinn til þess að fylgjast með glugganum og mannaferðum fyrir utan.  Þegar rétta manneskjan gengi framhjá væri það merki um að Martine hefði örfáar mínútur til þess að ná perlunum.

         ***

Perlurnar hafði hún séð fyrir tæpum mánuði, hangandi á Igenaux markgreifafrú.  Þetta var ansi stór festi, líklegast fimm fet því frúin var allt annað en horuð og perlufestin var vafin þrjá hringi um hálsinn hennar og hékk auk þess niður á maga.

En það var ekki lengdin sem hafði fangað athygli Martine, það var nóg til af löngum perlufestum, það voru gæðin.  Markgreifafrúin hafði verið að stíga út um aðaldyr óperuhússins og Martine var fyrir utan, dulbúin sem blómasölukona.  Þegar hún sá skjannahvítan glampa og mikla stærð perlnanna vissi hún að þetta var alveg einstök festi.  Drifhvíti liturinn og ummálið gáfu til kynna að þetta væru hreinar Cantabarperlur, þær verðmætustu sem völ var á.

Martine  var fljót að reikna, fimm fet hljóðaði upp á nokkrar milljónir.  Hún tók ákvörðun á staðnum:  Þessa perlufesti yrði hún að fá.

Að fanga þær lá í aðferðinni.  Það voru nokkrir möguleikar, en ekki allar sem hentuðu.

Einfaldast og grófast var bara að ryðjast að frúnni, rífa af henni festina og stinga svo af.  Auðvitað myndi það aldrei ganga, hún sá að markgreifafrúin var með tvo lífverði meðferðis og þó þeir væru ef til vill ekki fljótir að hlaupa gætu þeir gert borgarvaktinni viðvart.  Í þessu fína hverfi voru vaktmenn á hverju götuhorni, til vernda aðalinn frá ótýndu þjófapakki.

Það voru ekki átökin sem hún óttaðist.  Martine var nokkuð vopnfim og kunni að slást, en hún vildi bara ekki þurfa að standa í svoleiðis.  Í þessu starfi var fátt öruggt.  Hún gæti, fyrir slysni eða klaufaskap, verið handtekin hvenær sem er og það var allt annað að sitja af sér dóm fyrir hnupl eða fyrir líkamsárás, hvað þá manndráp.   Slíkt myndi enda hjá böðlinum og það voru leiðinlegir karlar sem hún vildi alls ekki hitta.

Annar möguleiki vað að komast að því hvar frúin byggi, brjótast inn og stela festinni.  Ágætis áætlun en hentaði heldur ekki.  Martine var ekki innbrotsþjófur, engin sérfræðingur í að klifra upp niðurfallsrör eða opna peningaskápa.  Það var nokkurn vegin öruggt að þessi dýrmæta festi væri geymd í einum slíkum.

Þriðji möguleikinn var sá besti og sá sem hún hafði beitt oftar en einu sinni.  Hún myndi ráða sig í vinnu á heimili markgreifafrúarinnar.

***

Það reyndist lygilega auðvelt.  Þessi stóru heldrimannaheimili í Lyosborg voru   mannmörg, þó að fjölskyldurnar voru ekkert sérlega stórar.  Í húsi Igenaux markgreifafrú bjuggu hún og markgreifinn, dóttir þeirra og sonur, auk föðurs markgreifans.  En utanumhaldið um húsið, garðinn og þessar fimm manneskjur var gríðarmikið.  Alls voru um tuttugu og sjö þjónar og þjónustustúlkur á heimilinu, einkaþjónar, húsþjónar, hestasveinar, matráðskona, garðyrkjumaður og svo lífverðirnir tveir.

Þau sem voru í efstu stöðum þjónustuliðsins höfðu verið þarna árum saman, en neðstu þrepunum var skipt út mjög reglulega.  Sumar stúlkurnar stóðu sig illa í starfi, urðu ófrískar eða giftu sig, stundum hvorutveggja, og þá losnuðu stöðurnar.

Martine var ekki lengi að komast að því að heimilinu vantaði allrahanda þernu og hún stökk til.  Það var leikur einn því hún átti heilan haug af fölsuðum meðmælabréfum sem hentuðu við öll tækifæri.

Eftirleikurinn var síðan nokkuð hefðbundinn, byrja að vinna, fylgjast vel með, snuðra, skrá niður allt mynstur er tengdist frúnni og perlunum hennar og bíða síðan færis.  Auðvitað var þetta þolinmæðisvinna og gat oft tekið á taugarnar, en Martine  átti þó von á því að græða nokkrar milljónir fyrir mánaðarstarf.  Ekki slæmt tímakaup það.

Hún leit aftur upp frá skrúbbnum að glugganum.  Eftir nokkrar mínútur myndi frúin koma heim ásamt hundinum sínum og öðrum lífverðinum.  Það var regla hjá frúnni að fara út í gönguferð með hundinn fyrir morgunmatinn, ef veður leyfði.  Þegar hún kæmi aftur myndi hún fyrirskipa verðinum að leggja seppa í bælið sitt en sjálf myndi hún fara með einkaþernunni sinni í svefnherbergið uppi á annarri hæð.  Þar myndi þernan hjálpa þeirri gömlu að skipta um föt og skartgripi.  Markgreifafrúin dressaði sig alltaf upp, jafnvel þegar hún fór með hundinn út að ganga.  Hálsmen og eyrnalokkar yrðu sett í rammgerðan stálskáp og annað skart, sem frúin ætlaði að nota yfir daginn, yrði tekið út.

Þarna myndaðist glufa, sem Martine hafði fylgst með úr leyni.  Þernan opnaði stálskápinn, lagði skartgripi inn í hann og tók aðra út.  Hún gekk með þá nýju að snyrtiborði frúarinnar, sem var í öðrum hluta svefnherbergisins, snéri síðan til baka, lokaði skápnum og læsti honum.

Þetta örstutta augnablik, þegar hún var með bakið í stálskápinn, var ef til vill ekki nema þrjátíu sekúndur, en það myndi nægja Martine.

Það heyrðist fótatak frá götunni og hún leit upp.  Í gegnum glerið sá hún fætur frúarinnar strunsa framhjá.  Á eftir komu fætur hundsins, sem var heljarstór órískur úlfhundur.  Á eftir dýrinu kom einkaþernan, settleg, miðaldra og ákveðin kona og síðan  annar lífvörðurinn.  Það var varla þörf á á vera með tvo lífverði þegar frúin var með hund sem gæti auðveldlega étið ólánsama þjófa.

Martine sleppti skrúbbnum, hann datt með skvampi ofan í skúringarfötuna.  Það var komið að því.

Hún stóð upp og leit í kringum sig.  Undirvinnukonan var löngu farin og engin sjáanlegur, Martine tók því á rás.  Hún hljóp eftir endilöngum kjallaranum og að mjóum stigagangi.  Það voru tveir stigar í húsinu, aðalstigin og síðan þessi sem var ætlaður þjónustufólki.  Hún var klædd skósíðu pilsi sem var hluti af einkennisbúningi hennar, hrikalega fyrirferðamikill klæðnaður.  Hún hífði pilsið upp fyrir hné, hljóp upp stigann og tók tvær tröppur í einu.

Hún mætti engum á leiðinni, sem betur fer.  Á stigapallinum á fyrstu hæðinni var hurðin að lokast, þannig að hún dokaði nokkrar sekúndur áður en hún hljóp áfram uppá aðra hæð.  Þar opnaði hún dyrnar varlega og gægðist fram á gang.  Engin sjáanlegur, en hún heyrði fótatak frá hinum enda gangsins og vissi að frúin og þernan hennar væru að nálgast.

Martine skaust inn ganginn að svefnherbergisdyrum frúarinnar.  Hún opnaði varlega, dyrnar voru ólæstar enda var önnur þjónustustúlka nýbúin að vera þar inni við að þurrka af.  Martine stökk hljóðlaust inn og lokaði á eftir sér.

Markgreifafrúin átti þetta svefnherbergi ein, hjónin sváfu ekki saman.  Herbergið var tvískipt, í fremri hlutanum var himnasængin, snyrtiborðið og lítið teborð, í aftari hlutanum voru fatageymslur og svo blessaður stálskápurinn.  Martine flýtti sér þangað.

Fataskáparnir voru þrír, misdjúpir.  Sá stærsti var fyrir kjóla frúarinnar, annar fyrir skó og yfirhafnir og sá þriðji fyrir náttklæði og undirföt.  Martine opnaði þann síðastnefnda og smeygði sér inn.  Að kalla þetta fataskáp var rangnefni, þetta var eins og lítið herbergi með hillum og hólfum fullum af silkifíneríi.  Hún hafði valið að fela sig inn í þessum skáp að augljósum ástæðum.  Þó að sú gamla myndi fara úr kápunni og skipta um kjól var ólíklegt að hún þyrfti að fara í hreinar nærbuxur, nema hún hefði lent í verulegum æsingi í hundagöngunni.

Nú var bara að bíða og hlusta.  Það var ekkert að sjá því það var niðamyrkur inní skápnum og Martine vildi ekki einu sinni gera litla rifu.  Einkaþernan var skarpskyggn og gæti tekið eftir því.

Það heyrðist þegar þær komu inn í svefnherbergið og frúin gaf einhver fyrirmæli.  Nokkra mínútur liðu, síðan kom fótatak einkaþernunnar: „Klopp, klopp, klopp“  svo annað hljóð: „Klikk, klakk, klonk.“

Þernan var að opna stálskápinn!

Martine beið, sekúndur liðu, „Klopp, klopp, klopp“ og hún opnaði dyrnar af ofurvarlega.  Hún sá í bakið á þernunni og steig hljóðlaust fram úr skápnum.  Þrjú skref og hún var fyrir framan opinn stálskápinn.  Fyrirbærið var boltað í vegginn, sem skipti víst litlu máli því þessi hlunkur var líklega nokkur hundruð kíló.

Inni í skápnum voru ótal skartgripabox, sum löng, sum stutt, sum kringlótt.  Eitt af þeim innihélt perlurnar og Martine vissi nákvæmlega hvaða.  Það var mjög stórt og hringlaga , á stærð við kökubox, klætt rauðu flaueli.  Hún opnaði það, hrifsaði innihaldið, lokaði boxinu og skaust aftur inní nærfataskápinn.

„Klopp, klopp, klopp“.  Þernan var að koma tilbaka.

„Klikk, klakk, klonk.“ Hún lokaði skápnum og hafði greinilega ekki tekið eftir neinu.  Stórkostlegt!  En nú tók við það mest taugastrekkjandi, biðin í myrkrinu eftir að sú gamla væri búin að skipta um föt og farin aftur niður, ásamt þernunni sinni,  að fá sér morgunmatinn.

***

Hún var lengi inn í skápnum, Martine fannst tíminn silast áfram.  Hún heyrði í þeim frammi, þegar einkaþernan dró fram hvern kjólinn á fætur öðrum þannig að frúin gæti mætt í morgunmatinn sómasamlega klædd.  Loks komst einhver niðurstaða í þetta leiðindamál og hún heyrði þær yfirgefa svefnherbergið.  Hún beið samt í korter til viðbótar, bara til þess að vera örugg.  Það var aldrei að vita en kerlingin gat snúið aftur ef hún hafði gleymt mikilvægum vasaklút eða einhverju slíku.

Loks gægðist Martine fram.  Hún sá engan þannig að hún steig fram og gekk hljóðlaust að svefnherbergisdyrunum.  Hún leit fram á gang, engin var á ferli þannig að hún gekk einfaldlega út og lokaði á eftir sér.

Það var allt og sumt.  Áætlunin hafði tekist, mánaðar skúringarvinna að baki og hún orðin moldrík.  Það eina sem var eftir var að yfirgefa þetta leiðindahús og koma perlufestinni í verð.  Það yrði barnaleikur, hún þekkti fleiri en einn skuggalegan karakter sem gætu tekið við góssinu , þótt hún yrði að greiða tíu prósent umsýslugjald.

Það skipti engu, Martine var ekki það mikil aurasál að hún færi að röfla um smámuni.  Einu vandræðin á þessu augnabliki var perlufestin sjálf.  Inni í fataskápnum hafði hún strax orðið þess vör að það var erfitt að eiga við þessi fimm fet.  Þetta var eins og kaðall!  Hvernig fór sú gamla að því að bera þetta?

Ekki gat Martine vafið þessu um hálsinn á sér og þetta var of fyrirferðamikið til að troða í vasa.  Hún hafði áætlað að fela festina innanklæða, kannski vefja henni um mittið, en það gekk ekki.  Perlurnar voru of stórar og sleipar þannig að ekki var hægt að hnýta festina saman. Ef hún vöðlaði henni upp væri bunga á búningnum og ef hún léti hana hanga myndi hún lafa niður á gólf.

Að lokum fann hún einskonar lausn með því að troða hluta perlnanna inn um strenginn á sokkabuxunum og lét restina dingla milli fótanna.  Þetta var hrikalega óþægilegt og þegar hún hreyfði sig byrjuðu perlurnar að renna smátt og smátt uppúr sokkabuxunum.  Fjandinn hafi það!  Hún yrði bara að komast út sem fyrst og …

„Þarna ertu þá!“ sagði hvöss rödd fyrir aftan hana.  Martine snérist á hæli, yfirvinnukonan stóð þar með fangið fullt af rúmfötum.  Hún var ekkert svipfegurri en undirvinnukonan og eiginlega verri því hún hafði meira völd.

„Varst þú ekki að skúra í kjallaranum?“

„Ég var búin,“ svaraði Martine með eins mikilli undirgefni og frekast var hægt.  „Undirvinnukonan sagði að ég ætti að athuga hvort ekki þyrfti að skúra háaloftið.“

„Háloftið?  Hvurslags vitleysa er það?“ svaraði undir vinnukonan hneyksluð.  „Það er ekki skúrað á þessum árstíma, þar er bara geymsla.“

„Æ, fyrirgefðu, ég hlýt að hafa misskilið,“ sagði Martine bljúg og snéri sér til þess að fara.

„Andartak góða mín.“  Undirvinnukonan steig nær og þrýsti rúmfötunum í fangið á Martine sem kiknaði undan þunganum.  Undirvinnukonan var sver, mikil og nautsterk.  „Óþarfi að láta ferðina fara til spillis,“ sagði hún, „Farðu með þetta niður í þvottahús, ég hef öðrum skyldum að gegna.“

„Sjálfsagt,“ svaraði Martine glöð þrátt fyrir þungan.  Hún var hvort eð er á leiðinni niður.

Hún staulaðist með fangið fullt að bakstiganum.  Eftir nokkur skref þurfti hún að stoppa því perlurnar voru byrjaðar að síga aftur.  Hún leit við, undirvinnukonan starði tortryggin á hana.

„Þungt,“ sagði Martine afsakandi, fikraði sig að stigapallinum og flýtti sér eins og hún gat niður.

Á jarðhæðinni  kastaði hún þvottinum á gólfið og lagaði perlurnar innan á sér.  Bakdyrnar voru nokkra metra frá stigapallinum, hún þaut að þeim, opnaði hurðina og … sá þrjá vaktmenn á gangstéttinni rétt fyrir utan.

Fjandans óheppni!  Þetta kom henni samt ekki á óvart því þarna var krökkt af vopnuðum vaktmönnum.  Borgarvaktin var mjög sýnileg og áberandi í Savallion, sem var jú ríkasta hverfi Lyosborgar.

Þeir komu auga á hana, kinkuðu kolli vinalega og einn þeirra sagði:  „Góðan daginn fröken.“

„Góðan daginn,“ svaraði hún.  Hún rétti fram lófann og horfði upp í himininn eins og hún væri að gá til veðurs, síðan fór hún aftur inn og lokaði á eftir sér.  Hún gæti ekki einfaldlega strunsað út á götu, yfirhafnalaus og í þjónustubúningnum, það yrði allt of grunsamlegt og gæti vakið áhuga vaktmannanna.

„Hvað er þessi þvottur að gera hérna“? spurði karlmannsrödd, það var einkaþjónn markgreifans.

„Fyrirgefðu herra.  Ég var á leið með hann niður í þvottahús en klæjaði skyndilega í nefið.“

„Ja, láttu hann ekki liggja hérna.  Ég var næstum því dottin um hann!“

„Já, herra,“ sagði Martine.  Hún tók upp þvottinn og staulaðist með hann niður í þvottahús.  Hún var nýbúin að losa sig við hann og var á leiðinni aftur upp þegar hún rakst aftur á undirvinnukonuna.

„Þarna ertu þá stúlka!  Hérna, taktu þetta!“  Hún rétti Martine kolafötu.  „Það þarf að kynda hjá unga herranum.  Hann var á  næturfundi með vinum sínum og við gætum átt von á honum á hverri stundu.“

„Já, fröken,“  sagði Martine.  Hún bölvaði í hljóði og lagði af stað aftur upp stigann.  Hún yrði að finna einhverja leið út úr þessu húsi, án þess að nokkur tæki eftir því.  Líklegast væri best að bíða aðeins og reyna að finna sennilega afsökun.  Kannski gæti hún boðist til að fara í  sendiferð.

Hún rogaðist með kolafötuna upp á aðra hæð, inn ganginn framhjá svefnherbergi frúarinnar og fór inn í herbergi unga herrans.  Hann var yngsti sonur markgreifahjónanna, algjör iðjuleysingi, eins og flest af þessu fólki, en líka drykkjurútur.  Ef undirvinnukonan sagði að hann hefði verið á næturfundi þýddi það líklega fyllerí.

Martine bisaðist með kolafötuna að arninum, lagaði perlurnar enn og aftur og velti því fyrir sér hvort hún ætti nokkuð að nenna að kynda upp.  Þeim vangaveltum var eytt þegar hún heyrði dyrnar opnast fyrir aftan sig.

„Nei sko, hvað finn ég hér?“  spurði drafandi rödd unga herrans.  Martine leit snöggt við og hún sá hvar hann gekk inn í herbergið.  Hann var klæddur í samkvæmisfatnað en krumpaður og tuskulegur eins og hann hefði sofið í þeim.    Hann var líka órakaður, virðulega yfirvaraskeggið ógreitt og olíuborið hárið hans stóð út í loftið.  Vínstybban kom á undan honum eins og brimbrjótur á skipi.

Hann var í sjálfu sér ekkert ómyndarlegur ungur maður, grannur og þokkalega formaður.  En hann hafði bara öll þessi karaktereinkenni fyllibyttunnar, sem gerðu hann verulega slepjulegan þegar hann var fullur og ósanngjarnan þegar hann var þunnur.

„Góð … góðan daginn herra,“ sagði hún undirgefin og vonaði svo innilega að fíflið léti sig í friði.  Henni sýndist það vera borin von.

„Þetta er heldur betur góður dagur, að minnsta kosti fyrir mig að finna svona yndisrós í svefnherberginu mínu.“  Hann reyndi að blikka hana en það tókst ekki vel.  Annað augað lokaðist eins og hann hefði fengið í það sandkorn, tungan stakkst út um munnvikið og hann varð allur skakkur í framan.  Áhrifin minntu á flogaveiki og voru álíka spennandi.

„Er allt í lagi herra?“ spurði hún.

„Auðvitað er allt í lagi,“ sagði hann þvöglumæltur og blikkaði með hinu auganu, það var ekkert betra.  „Gæti ekki verið betra þegar maður hittir fyrir svona þokkadís.“  Hann reyndi að faðma hana en hún vér sér undan.

Hann hafði dálítið sérstakan smekk á konum þessi ungi herra.  Martine vissi að hún liti ekki út sem nein þokkadís, hún gerði meira að segja sérstaklega í því.  Það var nauðsynlegt fyrir það dulargervi sem hún bar að vera bæði venjuleg og óspennandi.  Þess vegna var hún alveg ómáluð með augabrúnirnar svo mikið plokkaðar að þær voru næstum því ósýnilegar. Hún hafði litað ljósa hárið sitt dauf-brúnt og bundið það í óklæðilegan hnút og síðan hafði hún saumað létta ullarpoka innan í búningin sinn svo hún virtist bæði flatbrjósta og með stóran afturenda.

Hvernig átti hana að gruna að þetta var ákkúrat týpan sem heillaði unga herrann?  Líklegast var þarna komin ein ástæðan fyrir því að það þurfti oft að skipta um ungar vinnukonur á heimilinu.

„Ég skal segja þér Marine …“ hélt hann áfram.

„Martine,“ leiðrétti hún.

„Já einmitt.  Ég skal segja þér að það er eitthvað svo sérstaklega heillandi við þig.  Þegar ég horfi á andlitið þitt, eins og tungl í fyllingu, sé ég heilu ættbogana af verkakonunum.  Grófar og sveittar stritið þið fyrir lífskjörunum, með sigg á höndunum og dauf augu en samt svo kynþokkafullar að maður gelúmf.“

Martine hafði fengið nóg og hún kýldi hann.  Það kom henni sjálfri nokkuð á óvart, en hún gat bara ekki hlustað á þetta kjaftæði lengur.  Hún lét vaða beint á túlann á honum þannig að hann steinlá auk þess sem hann rakst utan í stól og rotaðist.

Ansans, hugsaði hún, þetta gerir málið ekkert auðveldara.  Hún vissi ekki hversu lengi hann lægi í rotinu en um leið og hann rankaði við sér myndi hann örugglega láta ófriðlega.  Hún yrði að komast út og það strax!  En ekki gat hún  látið hann liggja þarna þannig að hún dröslaði honum inn á baðherbergið, batt hann við klósettið og tróð tusku upp í hann.  Þetta myndi kannski kaupa nokkrar mínútur.

Martine flýtti sér síðan að hurðinni og leit varlega út.  Hún lokaði henni strax aftur því að annar lífvörður frúarinnar var að koma eftir ganginum.  Hvað  var hann að vilja uppá dekk?  Það var sjaldgæft að lífverðirnir voru að væflast upp á annarri hæðinni.  Var hann að ná í unga herrann?  Eða kannski að leita af henni sjálfri?

Hvað sem það var þá gat hún ekki farið að ganga í flasið á honum.  Hún snéri sér við og fór að glugganum.  Það var ansi langt niður en löng sylla fyrir utan gluggann.  Kannski gæti hún fikrað sig eftir henni yfir að næsta eða þarnæsta glugga og sloppið þannig við lífvörðinn.

Hún ákvað að reyna, en þetta var ekki auðvelt.  Syllan var ekkert sérstaklega breið og hún var ekki fyrr komin út á hana þegar fjandans perlufestin byrjaði að síga aftur.  Þetta var  meiri óláns skartgripurinn!

Hún leit niður, festin var farin að gægjast út undan pilsinu.  Hún greip því dauðahaldi í niðurfallsrör með annarri hendinni, hysjaði upp um sig pilsið með hinni og tróð megninu af perlufestinni aftur ofan í sokkabuxurnar.  Hún vonaði svo sannarlega að engin niðri á götu væri að líta upp því þetta var sannarlega grunsamleg sjón.

Hún hélt áfram eftir syllunni, framhjá svefnherbergi frúarinnar og að glugga setustofu sem var þar við hliðina.  Sem betur fer var hann opinn þannig að hún snaraði sér innfyrir.

„Martine, hvað í ósköpunum ertu að gera stúlka?“  Hún leit við, það var yfirþjóninn.  Sem betur fer var hann vinalegur eldri maður sem hafði alltaf umgengist hana eins og hún væri manneskja en ekki vinnudýr.

„Afsakaðu herra, ég var bara að athuga hvort þyrfti að þrífa gluggana utanfrá,  mér sýndust þeir vera óhreinir.“

„Uss, uss, hafðu ekki áhyggjur af því, það eru aðrir sem sjá um það.  En fyrst þú ert hérnagætir þú gert mér greiða.“  Hann hélt uppi  bunka af bréfum.  „Ég var á leiðinni með póstinn til herrans og sé að frúin á hér eitt bréf.  Gætir þú fært henni það?  Ég held að hún sé niðri í borðstofu.“  Hann rétti henni umslag.

„Sjálfsagt herra,“ svaraði hún og tók við bréfinu.  Þetta var alveg kjörið, til þess að komast að borðstofunni þyrfti hún að fara framhjá aðaldyrunum.  Þar gæti hún loksins skotist út.

Hún fór hröðum skrefum niður aðalstigann, að útidyrunum, en þegar hún opnaði þær sá hún aftur þrjá vaktmenn á götunni fyrir framan húsið.  Martine snarstoppaði.  Voru þetta sömu vaktmennirnir og voru fyrir aftan?  Hún var ekki viss, þeir voru allir svo líkir í þessum bláu búningum með hjálmana sína og vopnin.

Þeir horfðu á hana og aftur þóttist hún vera að gá til veðurs.  Hún veifaði síðan vinalega, fór inn og lokaði á eftir sér.  Hvað nú?  Hún var ennþá með bréf frúarinnar milli fingranna þannig hún gæti allt eins komið því til þeirrar gömlu.

Hún gekk inn í borðstofu, þar sat frúin við morgunverðarborðið ásamt dótturinni og tengdaföðurnum.  Dóttirin var niðursokkin í einhverja bók og leit ekki upp, en tengdapabbinn, sem var mjög roskinn maður, var að reyna að hella heitu te í undirskálina sína.  Við hlið markgreifafrúarinnar sat hundurinn prúður.  Frúin var að reyna að gefa honum kex með kavíar.

„Svona dúllan mín, fáðu þér bita,“ sagði hún við hundinn, en hann fúlsaði við kræsingunum.

Martine stóð við dyrnar ræskti sig, „Afsakið frú, ég er hér með bréf til yðar.“

Frúin leit á hana, „Stattu ekki þarna eins og þvara stúlka, komdu með það til mín.“  Martine gerði það, en um leið og hún tók við því sagði frúin:  „Farðu svo með dúlluna niður í eldhús og finndu eitthvað handa honum að borða.  Hann er eitthvað sérvitur í matarvalinu í dag.“

„Eh … hundinn?“

Frúin hvessti augunum að Martine en leit svo á tengdapabbann sem var að sötra te úr undirskálinni.  „Auðvitað hundinn, hvern hélstu að ég væri að meina?“

„Sjálfsagt frú,“ svaraði Martine og tók upp beislið.  Við það losnuðu perlurnar aftur og fóru að síga enn á ný.  Martine stirnaði.

„Meðal annars,“ hélt frúin áfram, „Hefur þú nokkuð séð unga herrann í morgun?“

„Ah … nei frú,“ svaraði Martine og iðaði til í pilsinu í vonlausri baráttu við rennsleipa perlufestina.  Sem betur fer var frúin byrjuð að skoða bréfið og leit ekki upp.

„Hann er líklegast ennþá sofandi,“ sagði sú gamla, grunlaus um næturbrölt sonarins.  „Jæja, ef hann er ekki kominn í morgunmatinn fljótlega sendi ég einhvern upp að vekja hann.“  Skyndilega tók hún eftir hreyfingum Martine.  „Hvað er þetta stúlka?  Ertu með njálg?”

„Ha?  Nei, frú.” svaraði Martine og reyndi að standa kyrr,

„Jæja þá, ætlar þú ekki að fara með dúlluna mína í eldhúsið?“

„Auðvitað frú, fyrirgefið.“  Martine, hneigði sig klaufalega og leiddi hundinn fram.   Nú var tíminn naumur, hún horfði löngunaraugum á útidyrnar en grunaði að sú leið væri ófær.  Það var erfiðara að komast frá þessu húsi en að sleppa úr fangelsi!  En kannski kæmist hún út um bakdyrnar núna.

Hún lagaði perlurnar enn og aftur og fór svo með seppa niður í eldhús.  Þar stóð matráðskonan við hakkavél og vara að búa til pylsur.  Þetta var þrútin, rauðleit kona og hún hvessti augunum þegar hún sá hundinn.

„Hvað ertu að gera með dýrið hérna?“ gelti hún.

„Frúin bað um að eitthvað yrði fundið handa honum að éta,“ svaraði Martine.  „Honum langaði ekki í kavíar.“

„Fjandans dekurdýr.  Er verið að troða í hann fokdýrum kavíar?“  Hún lagði frá sér seinustu ófylltu pylsurnar og sagði:  „Hérna stelpa, kláraðu þetta á meðan ég fer og finn bita handa skepnunni.  Ég þarf síðan að senda þig með þetta í reykhúsið á eftir.“

„Í reykhúsið?“ sagði Martine himinlifandi.  Loksins var flóttaleiðin komin!  Reykhúsið var hjá slátraranum í öðru hverfi og hún væri þá löglega afsökuð að yfirgefa húsið.  Og þegar að matráðskonan var farin sá Martine annað sem gæti gert lífið auðveldara.

„Hana,“ sagði konan þegar hún kom tilbaka, „Ég fann nokkra kalkúnahálsa, dýrið getur gert sér þá að góðu.  Ertu búin að gera seinustu pylsurnar?“

„Já,“ svaraði Martine skælbrosandi.  „Ég ætla að sækja kápuna mína og get þá strax farið af stað í reykhúsið.“

Hún þaut af stað upp á herbergið sitt, greip yfirhöfnina og var komin aftur niður nokkrum mínútum síðar.  Hún sá að bakdyrnar voru opnar og matráðskonan stóð fyrir utan og var að reykja pípu.  Kerlingin gerði þetta oft, en passaði sig á því að reykja ekki innandyra.

En þegar Martine kom í eldhúsið rak hún næstum upp hljóð.  Hundurinn var þarna ennþá, löngu búinn með kalkúnahálsana og var byrjaður að gæða sig á pylsunum.  Hann hafði krækt í lengjuna á borðinu og dregið hana út á gólf.

„Skammastu þín!  „Vondur hvutti!“ sagði hún og sló til dýrsins sem hrökklaðist undan.Hún greip upp pylsurnar, það var slatti eftir en, mikilvægustu hlutarnir höfðu horfið í kjaftinn á hundinum.

Þegar Martine hafði verið sett í það að fylla nokkrar sá hún sér leik á borði til að losna við þessi óþægindi í sokkabuxunum.  Hún hafði því tekið perlufestina í sundur og troðið henni inn í pylsurnar.

Hún leit á lengjuna sem hún hafði hrifsað upp af gólfinu, það glitti á perlu í pylsuendanum en hún sá líka að bróðurparturinn var kominn í belginn á hundinum.  Hvað átti hún að gera núna?  Skera hann upp?  Láta hann æla?

„Hvað, ertu ekki farin?“  spurði matráðskonan ásakandi um leið og hún gekk inn í eldhúsið.

Martine sá það í hendi sér að hún gæti varla farið að útskýra ástandið fyrir þessari konu. „Jú, jú.  Ég er á leiðinni,“ Hún tróð restina af pylsunum ofan í strigapoka.  „Ég fer með þær rakleiðis,“  sagði hún að lokum áður hún þaut út um bakdyrnar til móts við frelsið.

***

Þegar hún var komin í skjól skoðaði hún fenginn.  Það var sem hana grunaði, þarna var eitt fet af skjannahvítum perlum, restin höfðu fengið nýtt heimili.

En ekki lengi!  Í fyrramálið þegar frúin færi með hundspottið í göngutúr þá myndi Martine fylgja þeim hvert fótmál, dulbúin að sjálfsögðu.  Hún tæki með sér poka og góða hanska því hún léti ekki svona verðmæti fara til spillis.

Þjófsstarfið gat verið hættulegt, spennandi, ábátasamt, en líka hrikalega sóðalegt.

Íbúðin sem þreif sig sjálf

(Þetta kalla ég gamansögu, þó að gamanið sé svolítið grátt)

Halldór var í rusli.

Gísli bróðir hans var það líka þó það mætti segja að Gísli bróðir hans Halldórs hafði alltaf verið í rusli því hann var hræðilegur sóði.

Þetta hafði verið svona alla tíð alveg frá því að þeir voru smástrákar að alast upp á Njálsgötunni.  Þegar Halldór var að leika sér hafði hann unun af að raða upp bílunum sínum eða setja saman Legókubbana í reglulegar stæður.  Gísli dreifði hins vegar leikföngunum í kringum sig í óskipulögðum hrúgum sem varla var hægt að flokka eða skipuleggja.  Á kvöldin mokaði mamma þeirra öllu dótinu hans Gísla ofan í einn stóran plastkassa á meðan að Halldór hafði gengið snyrtilega frá öllu sínu.

Þegar þeir voru eldri fengu bræðurnir sitthvort herbergið.  Hjá Halldóri var allt í röð og reglu, alltaf búið um rúmið, bókum fallega raðað í hillu og einungis þrír hlutir á skrifborðinu, tölva, lampi og innrömmuð mynd af mömmu.

Í herbergi Gísla var skrifborðið ógreinilegt form undir hrúgu af drasli.  Gólfið var þakið umbúðum af samlokum, súkkulaðibitum sem búið var að traðka á og óhreinum nærbuxum.  Það voru kókslettur á veggjunum og rifin plaköt sem héngu uppi á lyginni.  Því minna sem sagt var um rúmið hans því betra en undan því lagði alltaf fnyk að rotnandi matarleifum eða öðru ókræsilegu.

Mamma þeirra reyndi oft að taka til en það var eins og að tæma hafið með teskeið.  Fyrst reyndi hún vikulega, síðan mánaðarlega en svo gafst hún loksins upp og hætti að fara þangað inn.  Stöku sinnum leitaði þó draslið út fyrir herbergið.  Gísli lagði stundum undir sig stofuna þegar hann var að horfa á boltann.  Hann elskaði boltann meira en nokkuð annað.  Það var enski boltinn, þýski boltinn, spænski boltinn og brasilíski boltinn.  Árið 2024 þegar farið var að sýna frá kínverska boltanum gat Gísli meira eða minna legið í sófanum allan sólarhringinn og glápt.

„Helvíti spila þeir skemmtilegan bolta þessir litlu djöflar“ sagði hann kátur um leið og hann henti tómri kókdós á bak við sófann og tróð hálfétinni pítsusneið á milli púðanna.

Það var um þetta leiti sem leiðir Halldórs og Gísla skildu um sinn.  Halldór fór í verkfræði í Háskólanum og síðan í framhaldsnám til Bandaríkjanna.  Bróðir hans flosnaði hinsvegar uppúr námi og flestum þeim störfum sem hann tók sér fyrir hendur.  Gísli hafði ekki áhuga á neinu nema að liggja uppí sófa og horfa á boltann.

Að loknu námi snéri Halldór aftur heim og innan fimm ára hafði hann opnað sína eigin verkfræðistofu sem sérhæfði sig í sjálfvirkni innan heimilisins og heildarlausnum fyrir fjölskylduna.  Stofan gekk mjög vel og á skömmum tíma var Halldór orðin vel stæður maður.

Gísli fór í gegnum bótakerfið, fyrst atvinnuleysisbætur en síðan örorkubætur þegar lifnaðarhættir hans voru farnir að valda honum heilsutjóni.  Um svipað leyti fluttist hann loks að heiman eftir að mamma gafst loksins upp á honum og skipaði honum að hypja sig.  Þegar gamla konan dó nokkrum árum síðar var það óhjákvæmilegt að ábyrgðin á iðjuleysingjanum lenti á Halldóri.

Hann tók því með jafnaðargeði og ákvað að borga bara reikningana og skipta sér sem minnst af bróður sínum.  Þrifin voru samt erfiðust.  Halldór réð allskonar ræstitækna frá ýmsum þjóðlöndum til þess að taka til hjá Gísla en allir gáfust upp.  Þá fékk hann ræstiþjónustu sem var vön hreinsunum á frystihúsum og öðrum iðnaðarsvæðum.  Þeir entust í þrjá mánuði en neituðu þá að fara inn því umhverfið væri heilsuspillandi fyrir starfsfólkið.

Steininn tók úr þegar lögfræðingar hússtjórnarinnar þar sem Gísli bjó komu honum úr íbúðinni.  Lyktin og meindýrin voru orðin stöðug plága.  Halldór kom bróður sínum fyrir í skúr úti í Örfirisey en það var einungis tímabundin lausn.  Skúrinn átti að rífa eftir örfáa mánuði.  Halldór notaði tímann til þess að skipuleggja betri og varanlegri lausn fyrir vandræðagemlinginn hann bróður sinn.

Fyrirtækið hans „Íverulausnir ehf.“ hafði verið að vinna að tímamótaverk og Gísli yrði hið fullkomna tilraunadýr.

„Gakktu í bæinn litli bróðir“ sagði Halldór og bauð Gísla inní snotra hvítmálaða íbúð við Úlfarsfellið.

„Á ég að búa hér?“  hann virtist fyrst hissa en síðan ánægður þegar hann sá stærðina á sjónvarpsskjánum.

„Heldur betur, hérna getur þú lifað áhyggjulaus“ svaraði Halldór dálítið nefmæltur.  Það var alltaf erfitt að anda eðlilega í nærveru Gísla, stybban af honum var svæsin því hann var fyrir löngu hættur að þrífa sig, ef hann hafði þá einhvertímann gert það.

„Áhyggjulaus?“ hann klóraði óhreinan lubbann.  „Engin til að kvarta þó maður breiði dálítið úr sér?“

„Það getur engin kvartað þegar ekkert umkvörtunarefni er til staðar.“

Gísli skildi þetta ekki.  „Hvað meinarðu?“

„Hentu einhverju á gólfið.“

„Ha?“

„Hentu einhverju.“

„Hverju?“

„Skiptir ekki máli, bara einhverju.“

Gísli kafaði ofan í skítugan buxnavasann og dró upp þrjár krónur, tvo sígarettustubba, hálft Prins Póló og dálítið af eggjaskurn.  Hann lét þetta allt falla á snjóhvítt teppið í forstofunni.

Draslið var ekki fyrr lent en lítill hleri opnaðist á veggnum og þrjú silfurlituð vélmenni á stærð við ketti skutust út.  Vélmennin voru öll á hjólum og höfðu marga arma með áföstum verkfærum.  Þarna voru griparmar, sópar, klippur, litlar skóflur, ryksugubarkar, svampar, póleringaklútar og margt fleira.  Þau þutu út á teppið, klipptu draslið í sundur, týndu, sópuðu, ryksuguðu og rúlluðu síðan aftur inn um hlerann.

„Hva?“ sagði Gísli .

„Sjálfvirkir ræstiróbótar.  Þeir þrífa allt frá gólfi uppí loft, við erum með aðra sem sjá um þvottinn og uppvaskið, enn aðra í baðherberginu og svefnherberginu.  Þessi íbúð þrífur sig algjörlega sjálf!  Allt rusl er líka hlutað í sundur ef það er of stórt og flokkað í sérstakar tunnur sem eru inní geymslu.“

Gísli virtist ekkert alltof ánægður.  „Þarf ég þá að hafa þetta drasl í löppunum alla daga?“

Halldór hló bara.  „Slakaðu á brósi, ég get stillt þá þannig að þeir þrífa bara á nóttinni.”  Hann opnaði stjórnborð á veggnum, það var mjög flókið að sjá.  „Hvenær ferðu að sofa?”

„Ja það er nú misjafnt, þeir eru að sýna Kamerúnska boltann helvíti seint.”

„Ertu líka farinn að horfa á fótbolta frá Afríku?”

„Er eitthvað að því?  Þeir eru skemmtilegir þessir slánar þarna fyrir sunnan.”

„En háttatíminn þinn er þá…?”

„Svona … eitt til tvö leitið.”

„Fínt, ég stilli íbúðina á klukkan fjögur um nótt, allt nema svefnherbergið.  Þú verður ekki var við neitt.”

Halldór gerði þetta og svo skildi hann bróður sinn eftir í nýju fínu íbúðinni.  Þetta var á föstudegi og hann ákvað að láta Gísla í friði um helgina.  Það yrði prófsteinn á tækja-og hugbúnaðinn.

Næsta mánudag þegar hann mætti aftur svaraði enginn dyrabjöllunni þannig að Halldór notaði lyklaspjaldið sitt.  Íbúðin var glansandi fín, hann sá hvorki blett eða rykkorn en heldur ekki Gísla.  Bróðir hans var ekki í stofunni, eldhúsinu, svefnherberginu eða baðherberginu.  Hann fannst að lokum inn í sorpgeymslunni og Halldór hljóp þaðan út öskrandi.

Gísli hafði verið flokkaður.

Hörðu hlutarnir úr honum voru í einni tunnu, mjúku hlutarnir í annarri og vökvi í þeirri þriðju.  Allur frágangur var til fyrirmyndar, meira að segja beinin hans voru glansandi hrein og snyrtilega uppröðuð.

Engin vissi fyrir víst hvað hafði gerst en rannsóknarlögreglan komst að því að tveir leikir í Kamerúnska boltanum höfðu farið í framlengingu og líklegast hafði Gísli greyið sofnað í sófanum.  Sjálfur var hann svo haugskítugur að ræstiróbótarnir gerðu ekki greinarmun á honum og öðru almennu sorpi.

Löngu síðar, þegar Halldór var að mestu búinn að jafna á lostinu sig skaut hræðileg og syndsamleg hugsun upp kollinum sem hann gat ekki bælt niður.

Hann hafði aldrei séð Gísla bróður sinn jafn vel skipulagðan.

Dóttir vitavarðarins

(Þessi saga er í flokk sem ég kalla “Sögur frá sjónum”)

Marc hafði ekki hugmynd hvar hann var staddur.  Ekki minnstu glóru.

Það eina sem hann sá fyrir framan stefni skútunnar voru beljandi brimrastir með hvítfyssandi toppum.   Það var eins og þær voru að ógna honum, að þær gætu gengið yfir á hverri stundu og sökkt honum.

Suð-austan stormurinn hafði ekki verið óvæntur, hann var í spánni þegar Marc lagði af stað frá smábátahöfninni í Pont-l’Abbé þennan morgun.  Veðurspáin hafði samt gert ráð fyrir storminum síðdegis.  Marc taldi að hann hefði nægan tíma.  Hann ætlaði sér  rétt að sigla út með Brittanýskaganum og snúa til baka um hádegi.  Stormurinn skall á sex tímum of snemma.

Hann leit á úrið sitt,  sólin var að setjast en Marc hafði ekki séð til hennar í marga tíma.   Hann hafði öslast áfram gegnum glórulaust svartnættið án þess að hafa hugmynd um stefnu eða staðsetningu.  Stuttu eftir að óveðrið gekk um garð hafði skútan hans fengið á sig brot.  Hún var rammbyggð, þrjátíu feta og stóðst áfallið að mestu.  En mastrið hafði brotnað og sjór flætt niður í káetuna. 

Eftir þetta áfall fór Marc alvarlega að íhuga neyðarkall.  Það var ekki sjálfgefið fyrir hann að biðja um aðstoð, hann reyndi að forðast öll samskipti við lög- eða strandgæslu.  Marc vildi enga hnýsni eða óþarfa spurningar.   Ekki yrði hlaupið að því að útskýra átta kíló af hreinu heróíni sem voru í leynihólfi neðanþilja.

Hann hafði sótt sendinguna í Líberískt flutningaskip klukkan ellefu þann morgun.  Þetta var orðin velþjálfuð rútína sem átti sér stað mánaðarlega. Hann lagði af stað í venjulega skemmtisiglingu og skildi eftir ferðaáætlun hjá hafnarstjóranum.  Venjan var að hann hitti skipið sunnan við Penmarch, þrjátíu mílur frá landi.  Hann sigldi nálægt fraktskipinu en stöðvaði aldrei.  Þeir köstuðu dópinu fyrir borð með flotbelg og Marc fiskaði það upp stuttu síðar.  Þetta voru hröð og örugg viðskipti.

Síðan birtist þessi helvítis stormur eins og þruma úr heiðskíru lofti og allt fór til fjandans.  Það var sannarlega mildi að ekki hafði drepist á mótornum, án hans væri skútan búin að vera.  Hann hafði varla sleppt þessari hugsun þegar hann heyrði vélina hiksta.  Hún gerði það tvisvar í röð og hjartað í Marc sökk.  Til allrar hamingju tók mótorinn sig upp aftur en það væri ekki hægt að bíða lengur.  Hann yrði að kalla á hjálp ef hann vildi eiga einhverja lífsvon.

Hann batt stýrið og hentist niður í káetuna en þegar hann leit þar inn sökk hjartað hans enn meira.  Sjórinn hafði ekki flætt inn heldur brotist inn.  Káetan var á rúi og stúi og allt ónýtt sem hægt var að eyðileggja.  Allur búnaðurinn hans, talstöðin hékk brotin fram af hillunni sinni, hann sá gemsann sinn liggjandi á gólfinu í ökkladjúpum sjó. 

Aftur hikstaði vélin, það skall alda á bakborðann og skútan byrjaði að halla ískyggilega.  Marc hljóp aftur upp í óveðrið og greip um stýrið.  Báturinn var farinn að leita of mikið undan vindi, ef honum yrði ekki snúið upp í ölduna þá …

Það birtist svo skyndilega að Marc greip andann á lofti.  Fyrir stefni bátsins var eitthvað svartari en stormurinn.  Hátt og mjótt teygði það sig til himins eins og tröllaukin risaeðla úr grárri forneskju.

„Jesús Kristur almáttugur“  muldraði Marc um leið og hann áttaði sig hvað þetta var.  Fyrir framan bátinn reis viti en það var slökkt á honum.   Á næstu sekúndum sá hann klettana undir vitanum koma fljúgandi á ógnarhraða.  Hann snéri stýrinu en það var um seinan, vélin gæti aldrei ýtt skútunni frá grjótinu í tæka tíð.

Höggið kom á stjórnborðann,  Marc kastaðist frá stýrinu og skall utan í skjólborðið. Það fór allt loft úr honum  og stjörnur blossuðu fyrir augunum.  Í gegnum öskrandi brimgnýinn heyrði hann skútuna skrapast og brotna.  Sekúndu síðar fann hann mikla öldu lyfta bátnum enn hærra upp á klettana og skella henni utan í grjótið.  Dekkið gekk í bylgjum undir honum og hann hafði óljósa tilfinningu að báturinn væri að liðast í sundur.

Hann leit yfir borðstokkinn, skútan lá á klettinum eins og dauður fiskur.  Hann yrði að komast frá borði, strax!  Næsta alda myndi brjóta allt í spón!  Hvað með dópið?  Andskotinn, ekki gæti hann skilið það eftir?  Þessi pakki var margra milljóna virði!

Hann hefði bara örfáar mínútur…nei sekúndur!  Hann brölti á fætur og skjögraði niður í káetuna.  Byrðingurinn þar var þegar brotinn og hann sá gráan klettinn í gegnum  rifuna.  Heróínið var falið bakvið þilplötu sem var skrúfuð föst.  Marc hafði engan tíma til þess að eiga við það.  Hann sparkaði í plötuna þar til hún brast.  Bakvið hana var lítill gulur sjópoki, hann þreif hann og hentist aftur uppá dekk.

Hann nam ekki staðar, tíminn var útrunninn, hann fann og heyrði ölduna brjótast upp klettinn í átt að skútunni.  Marc slengdi pokanum yfir öxlina og stökk fyrir borð.  Hann skall harkalega á klettinum, fann hvernig grjótið reif lófana og hnén.  Hann greip samt föstu taki í þær grjótnibbur sem hann náði til um leið og hann fann ölduna ganga yfir.  Hún reyndi að draga hann  upp grjótið og síðan aftur niður.  Hann náði samt með einhverjum hætta að halda sér þó það væri tæpt.  Öðru máli gegndi um skútuna, Marc leit við og sá hvernig hún dróst sundurlamin niður í sogið.

Hann byrjaði að klifra því hann gerði sér grein fyrir að hann þyldi ekki annað slíkt áhlaup.  Hann var blautur inn að beini, ískaldur og búinn að missa alla tilfinningu á höndunum, en hann gat ekki verið kyrr.  Næsta alda myndi drepa hann.

Honum tókst það loks að komast efst uppá klettin og lá þar kylliflatur, örmagna.  Hann leit upp, vitinn gnæfði yfir honum, langur svartur skuggi á himninum.  Af hverju í fjandanum var slökkt á honum?  Hefði hann séð ljósið lægi hann ekki þarna og skútan ekki sokkin í djúpið.

Eftir nokkrar mínútur fór aðeins að rofa til.  Skýjahulur sviptust til hliðar og silfrað tunglið kom í ljós gegnum storminn.  Marc sá að það var lítið steinsteypt íbúðarhús áfast vitanum.  Það var tveggja hæða með risi en engin ljós sáust í gluggum frekar en á vitanum. 

Hann stóð upp með erfiðismunum.  Hvort sem einhver væri heima eða ekki gæti hann að minnsta kosti látið vita af sér og fundið skjól fyrir storminum. 

***   

Marc barði dyra en engin svaraði, hann hafði ekki búist við því.  Það var eitthvað sérstaklega eyðilegt við þetta hús, eitthvað dautt.  Það var eins og engin hafði búið þarna lengi.  Hann tók í hurðarhúninn, dyrnar voru ólæstar.  Þetta kom honum heldur ekki á óvart.  Hver færi að læsa að sér þarna lengst úti á ballarhafi?

„Halló?“ kallaði hann þegar hann gekk inn, hann fékk ekkert svar.  Tunglið lýsti gegnum lítinn glugga fyrir ofan dyrnar.  Marc  stóð í litlu herbergi, óljóst sá húsgögn, stóla, borð, sófa.  Hann þreifaði með veggnum í leit af ljósrofa en fann engan. 

„Halló?“ kallaði hann aftur þó hann vissi innst inni að það væri tilgangslaust.  Það var eins og að íbúarnir höfðu …

„Pabbi, ert þetta þú?“ Röddin var lítil og mjóróma en hafði samt þau áhrif að Marc dauðbrá.  Hann snéri sér við og sá einhvern standa í skugganum í einu horni herbergisins.

„Þú ert ekki pabbi minn“ fullyrti röddin og veran steig skrefi nær inn í tunglsljósið.  „Veistu hvar hann er?  Ég finn hann ekki.“

Þetta var lítil stúlka.  Hún var kannski níu eða tíu ára gömul, grönn og föl með sítt dökkt hár og stór dökk augu.  Fyrst hélt Marc að hún væri í hvítum kjól en sá að þetta var náttserkur.  Hann var blautur og hún berfætt, henni hlyti að vera kalt.  Ósjálfrátt dró hann sjópokann fastar að sér og ýtti honum aftur fyrir bak.

„Ég finn hann ekki“ endurtók stúlkan.  „Ég er búin að leita og leita.“  Hann heyrði að hún var gráti næst.

„Hver ert þú?  Áttu heima hérna?“  Hún kinkaði kolli.  „Ertu ein?“ Hún kinkaði aftur kolli.

„Ég fór að sofa og þegar ég vaknaði var pabbi horfinn.“

„Hver er pabbi þinn?  Hvað voruð þið að gera héra?  Sökk undan ykkur?“

„Nei, hann pabbi…hann pabbi sér um vitann.  Hann á að láta ljósið skína, en hann er horfinn.  Ég kann ekki að kveikja á ljósinu.“

Vitavörðurinn horfinn?  Það hlaut að vera, en hvert í andskotanum fór hann og af hverju yfirgaf hann krakkann?

„Hvaða staður er þetta?“ spurði Marc.

„Staður?“

„Vitinn.  Hvað heitir vitinn?“ hann var dálítið hvass enda hafði hann litla þolinmæði þessa stundina.

„Te…Tevennec“ stamaði stúlkan.

Tevennec?  Hann hafði heyrt um þann stað.  Andskotinn, honum hafði hrakið langt af leið.  „Eigið þið bát?“  spurði hann í þeirri von að geta siglt burt af þessu skeri án þess að þurfa að kalla til strandgæslunnar.  Hann var mjög meðvitaður um dópið sem hékk á öxlinni hans.

Litla stúlkan hristi höfuðið, „Við komum með ferjunni.“

Djöfullinn sjálfur.  „Eigið þið talstöð?  Síma?“ spurði hann harkalega.

„Pabbi veit um það.  Ég finn ekki pabba.“  Hún beygði höfuðið og fór að skæla.

Hann áttaði sig skyndilega á því að hann hafði verið að yfirheyra stelpuna eins og lögga. „Heyrðu … uh … fyrirgefðu.   Ekki gráta.  Ég skal hjálpa þér að finna hann.“

Hún leit upp.  „Er það?“ spurði hún með vonartón, „Ég veit ekki hvar hann er.  Hann var hérna en svo bara…svo bara hvarf hann.“

Marc skimaði í kringum sig í hálfrökkrinu, ekki viss um hvar hann ætti að byrja.  Þetta var ekki stórt hús, ef hann fyndi ekki karlinn ætti hann að minnsta kosti að rekast á talstöðina. „Hvar kveikir maður ljós?“ spurði hann stúlkuna.

„Ljós?  Þarna,“ hún benti á litla kommóðu sem stóð við vegginn.  „Það er kerti þarna.“

Marc opnaði efstu skúffuna.  Þar var kertisstubbur og eldspýtustokkur sem virtist vera frá seinustu öld.  Það kviknaði samt á fyrstu eldspýtunni.  Ræfilslegt kertaljósið gerði lítið annað en að dýpka skuggana og gera umhverfið enn drungalegra.

 „Komdu“ sagði hann og þau gengu af stað.

Það tók ekki nema hálftíma að fara á alla staði hússins og hann fann ekki neitt.  Engan vitavörð, enga talstöð eða síma.  Herbergin voru full af drasli, gömlum húsgögnum og tómum kistum.  Í eldhúsinu voru rykfallnir pottar og gamlar pönnur.  Uppí í risinu var lítið trérúm fullt af strigadruslum.  Það var ískalt þarna uppi.

„Þetta er rúmið mitt“ sagði stúlkan.

Hverslags andskotans barnaníðingur var þessi vitavörður? Að láta krakkann hírast uppi í þessari kompu?  Helvítið var hvergi sjáanlegt og Marc var farinn að hallast að því að karlinn hafi farið út í storminum og fokið í sjóinn.

Þau fóru vondauf aftur niður, þá rak hann augun í dyr sem hann hafði ekki tekið eftir.

„Hvað er þarna?“ spurði hann stúlkuna.

„Vitinn,“ svaraði hún.

Auðvitað, hann hafði gleymt turninum.  Hann myndi hafa gott útsýni þaðan, kannski gæti hann séð karlinn.  Hann opnaði dyrnar.

„Ekki …“ sagði stelpan óttaslegin.

„Hvað er að?“

„Ég má ekki fara þarna upp, pabbi bannaði það.“

„Þetta er allt í lagi.  Hann er ekki hér, ég skal passa þig.“

Hún fylgdi honum hikandi.  Fyrir innan dyrnar var ryðgaður hringstigi sem ískraði og marraði ískyggilega þegar þau gengu upp.  Á toppi turnsins var ljóskastarinn, kaldur og dimmur.  Marc leit út um glerið sem umlukti kastarann.  Engar mannaferðir var að sjá, bara tunglbjartir klettar og úfinn sjór.  Á einum hluta glerveggjarins voru dyr.  Mjór pallur handan við þær og ryðgað handrið allan hringinn.  Marc tók í húninn og ýtti, glerhurðin opnaðist með lágu ískri.  Vindurinn æddi inn og það slokknaði á kertinu.

„Þú mátt ekki fara þarna út!“ hrópaði stúlkan skyndilega.

„Af hverju ekki?“ spurði hann tortrygginn.

„Ég … ég gerði það einu sinni,“ sagði hún með angistartón.   „Pabbi … pabbi varð svo reiður og svo sorgmæddur og … og … svo hvarf hann bara.“

Hún fór að háskæla, hann sá silfruð tár hrynja úr augunum hennar.  Hann vissi ekki almennilega hvernig hann ætti að bregðast við.  Hann hafði enga reynslu með krakka enda barnlaus.  Hún hélt áfram að gráta, yfirbuguð af ótta og sorg.  Marc gekk hikandi til hennar og tók hana í fangið með óstyrkum höndum.

„Ekki gráta, ekki gráta,“ sagði hann lágt.  Þetta verður allt í lagi, við finnum hann treystu mér.“

Hún vafði grönnum höndunum um mittið hans, hann lagði hönd á bakið hennar, náttserkurinn hennar var enn blautur.  Hún hlyti að hafa verið úti í rigningunni að leita af pabba sínum.

„Svona, svona,“ sagði hann hughreystandi og strauk hana um hárið.  Það var líka rennblautt og angaði af salti. 

Hárið hennar hreyfðist undir hendinni hans.  Honum brá og hann leit niður.

Það voru ljósir dílar í hárinu hennar og í tunglsljósinu sá hann hvað þetta var.  Þetta voru marflær, iðandi, svo þúsundum skipti.

Marc rak upp óp og ýtti stelpunni harkalega frá sér.  Hún skall utan í ljóskastarann og féll á hnén.

„Hvað er að? Hvað er að?!“ hrópaði hún og starði upp til Marcs með undrun og örvæntingu.  Hann sá að silfruðu tárin voru ekki tár, þetta voru einhverskonar pöddur sem hrundu úr augunum hennar.  Undir blautum náttserknum hennar sá hann önnur kvikindi sprikla.

Hann bakkaði frá henni, hugur hans fullur af viðbjóð og ótta.

„Hvað ertu að gera?  Ertu að fara?  Ert þú líka að fara?!“ veinaði stúlkan.  Þegar hún gerði það galopnaði hún munninn og Marc sá lítinn svartan krabba skjótast yfir tunguna hennar. 

Hann bakkaði enn meira frá henni.  Hann var kominn út á pallinn.  Vindurinn næddi um hann, einhversstaðar í fjarska heyrði hann brimrótið.

„Þú mátt ekki fara þarna út!“ grenjaði stelpan.  „Pabbi sagði það!  Hann sagði að það væri hættulegt!  Hann var svo sorgmæddur þegar … þegar … þegar ég datt!“

Hann heyrði ekkert af þessu, þetta voru bara orð, óskiljanleg.  Trylltur frumstæður ótti hafði heltekið hann.  Hann yrði að komast burt frá þessu fyrirbæri, ekkert annað komst að eða var mikilvægara.  Ekki dópið, ekki talstöð eða að finna pabba hennar.  Hann yrði bara að komast burt!   Það rakst eitthvað við bakið hans, handriðið.  Hann greip um það með titrandi hendinni en ryðbrunnið járnið gaf eftir eins og fúaspýta.

Hann var skyndilega á flugi, stormurinn gargaði í eyrunum hans, blaut fötin flöksuðu um líkamann.  Hann steyptist niður, niður, niður …

*** 

Marc opnaði augun.  Hann lá á bakinu.

Hann hafði ekki hugmynd hvar hann var staddur.  Ekki minnstu glóru.  Í kringum hann var bara grjót og klettar, fötin hans voru rennblaut en samt var honum ekkert kalt.  Hann fann ekki einu sinni fyrir bleytunni.

Við hliðina á honum var lítill gulur sjópoki.  Hvað var þetta?  Honum fannst hann ætti að kannast við pokann, að hann innihéldi eitthvað merkilegt.  Marc braut heilann yfir þessu andartak en var engu nær.

Hvar var hann?  Hvað hafði gerst?

Þetta var allt svo óljóst, eins og að vakna upp af draumi sem hverfur nánast samstundis úr huganum.  Hann mundi eftir bátsferð og vondu veðri en það var allt og sumt.

„Ég finn ekki pabba minn.“ sagði lítil mjóróma rödd.

Marc leit upp.  Yfir honum stóð dökkhærð, dökkeygð stúlka.  Hún var í blautum náttkjól.

„Ég finn ekki pabba minn“ endurtók hún.  „Getur þú hjálpað mér að leita?“

Marc stóð upp.  Hann var dálítið stirður og honum klæjaði um skrokkinn eins og lítil kvikindi væru að skríða á húðinni. Það var samt ekki óþægilegt, bara … skrýtið.

„Já“ sagði hann hikandi.  „Ég skal hjálpa þér að finna hann.“ Hann gekk til hennar, guli sjópokinn lá gleymdur á grjótinu.  Hann rétti henni lófann, hún brosti, hann brosti á móti.

Saman gengu þau hönd í hönd, yfir klettana upp að vitanum.

Freydís og jóli. Barnasaga frá Landnámsöld

Eitthvað vakti Freydísi um miðja nótt.

Kannski var það söngurinn í körlunum eða bara gnauðið í vindinum. Hún lá grafkyrr í rekkjunni sinni þar til hún áttaði sig á því hvað það hafði verið. Það var bank sem heyrðist fyrir utan skálann. Hvað skyldi þetta vera? Var einhver að smíða? Nei, hljóðið var ekki svoleiðis, þetta var óreglulegt.

Freydís reis upp. Það var frekar þröngt í rekkjunni þar sem hún svaf ásamt þremur frænkum sínum, en þær höfðu ekki rumskað við hljóðið. Hún ákvað að fara framúr og rannsaka þetta dularfulla hljóð en það var hægara sagt en gert. Hún þurfti að klifra yfir frænkurnar og vildi helst ekki vekja þær. Það skipti litlu máli með Hildiríði og Guðrúnu en Vilborg litla var bara tveggja vetra og hún myndi sennilegast góla ef hún væri vakin. Sjálf var Freydís níu vetra og af því foreldrar hennar voru húsráðendur í Reykjavík fannst henni hún bera ábyrgð að halda friðnum í skálanum.

Með ýtrustu varkárni tókst henni að komast fram úr rekkjunni og út á pallinn. Það var svartamyrkur innandyra, aðeins örlítil skíma af tunglsljósi sem kom niður strompinn og dauf glóð sem lifði enn í eldstæðinu. Það var líka kalt og þó Freydís væri í þykkri ullartreyju var hún berleggjuð. Hún skimaði í kringum sig í myrkrinu, sá ekki fötin sín en kom auga á ullarsokka afa hennar. Hún dró þá á sig, þeir náðu henni uppá mitt læri en henni varð allavega hlýtt.

Hún fikraði sig fram á gólfið að eldstæðinu. Hún lítinn lýsislampa sem var þar og kveikti upp í honum með glóðinni. Í bjarmanum greindi hún mörg lítil form sem lágu undir þykkum voðum í rekkjum skálans. Þetta voru allt börn eins og hún enda höfðu þau öll verið send saman í háttinn í þessum skála á meðan fullorðna fólkið hélt jólaveislu í skálanum við hliðina.

Auðvitað hafði hún og hinir krakkarnir tekið þátt í jólablótinu fyrr um daginn. Þá höfðu allir safnast saman í stóra skálanum, bæði Reykvíkingar og einnig Kjalnesingar sem boðnir voru til blótsins. Allir höfðu fylgst með athöfninni þegar goðinn blessaði líkneski og fórnardýrið var leitt fram og allir höfðu öll fengið dropa af helguðu blóði á ennið.

Eftir athöfnina var maturinn borin fram og það var sannarlega eftirminnilegt. Steiktur grís og hangið lambakjöt, magálar,bringukollar, mörbjúgu, brauð og smjör og ostar, þykkur grautur, sigin fiskur og hákarl. Allt þetta var svo gómsætt og vel útilátið að Freydís stóð á blístri eftir skamma stund. Þegar komið var fram yfir miðaftan voru börnin send í rúmið og þeir fullorðnu tóku til við öldrykkjuna. Mamma sagði alltaf að drykkjuveisla væri engin staður fyrir börn. Það var þó greinilegt að þau fullorðnu skemmtu sér vel því auk söngsins heyrði Freydís hróp og hlátrasköll.

Aftur kom þessi dularfulli skellur, þetta óreglulega bank. Hljóðin gerðu hana bæði forvitna en örlítið skelkaða líka. Hún hafði oft heyrt sögur að draugum eða hræðilegum forynjum sem lömdu hús um miðjar nætur. Þetta bank var reyndar svo aumt að ef þetta væri draugur þá væri hann óttaleg liðleskja.

Freydís gekk varlega fram að skáladyrunum, dró lokuna frá og opnaði rifu. Lítil snjódrífa tók á móti henni og þyrlaðist inn um opið. Það hafði verið nokkur ofankoma um morguninn í stilltu veðri, en síðdegis fór að hvessa talsvert af austan.

Samt var ekki slæmt skyggni, tungl var á lofti og hún sá vel yfir að stóra húsinu þar sem jólafagnaðurinn fór fram. Það var stærsti skálinn í Reykjavík og stóð hann við vesturbakka tjarnarinnar. Reykjavík taldi alls sjö íveruhús auk útihúsa og smiðja. Bæjarstæðið hafði vaxið mikið frá því afi hennar og amma höfðu fyrst numið þar land í gamla daga.

Á milli húsanna tveggja var hlaðið gerði þar sem hestarnir voru geymdir. Þarna voru bæði hross heimamanna og Kjalnesinga , eða svo átti að vera. Freydís sá að gerðið var eiginlega tómt og bara fjórir hestar innan þess. Hún sá líka að hliðið stóð opið og var að bankast til í vindinum. Þaðan hafði hljóðið komið.

En hræðilegt! hugsaði hún. Ef einhverjir hestanna myndu týndust, hvað þá? Kjalnesingarnir yrðu alveg æfir ef þá grunaði að illa væri hugsað um farskjótanna þeirra. Það yrði að finna hrossin, smala þeim saman og loka hliðinu tafarlaust! Því skaust hún aftur inn, fann fötin sín og klæddi sig í snatri. Hún fór ekki einu sinni úr ullarsokkunum hans afa en tróð sér með erfiðismunum ofan í skinnskóna. Síðan hljóp hún út en gætti þess að loka dyrunum varlega á eftir sér.

Sem betur fer höfðu hrossin ekki haft tíma til að fara langt og flest voru á austurtúninu þar sem Reykvíkingar geymdu heysáturnar. Freydís var fljót að smala klárunum saman og reka þá aftur í gerðið. Síðan lokaði hún hliðinu og batt það fast. Líklegast myndu veislugestir aldrei aldrei komast að þessu. Hún leit yfir stóðið til þess að fullvissa sig að allar skepnurnar væru þarna. Ó nei! Hún sá að það vantaði einn. Hennar eigin hestur var horfinn!

Það fór ekki á milli mála, hann var alhvítur og mjög áberandi. Hún kallaði hann Mána því stundum stirndi á hvítt faxið eins og mánaskin. Hann var góður reiðhestur sem afi hennar hafði gefið henni síðastliðið sumar. Hinsvegar var Máni ekki nema sjö vetra, dálítið ör og ævintýragjarn. Honum þótti greinilega sjálfsagt að skoða heiminn á eigin spýtur.

Hvert gat hann hafa farið? „Máni! Máni!“ kallaði hún en vindurinn gleypti bara hrópin. Var hann kannski í felum á bak við einhvern skálann? Þá varð henni litið niður, hún sá mörg hófför í snjónum en ein þeirra stefndu í austurátt, burt frá Reykjavíkurbænum.

Æ óttalegur kjáni gat hann verið. Hann var örugglega á leiðinni austur yfir læk. Hinumegin við lækinn risu holt vaxin þéttum birkiskógi. Síðastliðið sumar hafði Freydís riðið þangað í yndislegri blíðu. Hún og Máni höfðu fundið grösugt rjóður inni í skóginum og verið þar allan daginn. Líklegast væri þessi heimski hestur á leiðinni þangað aftur til að athuga hvort eitthvað væri eftir af safaríka grasinu frá í sumar.

Myndi hann skila sér að sjálfsdáðum? Hún gat ekki treyst á það, veðrið var svo rysjótt og það var svo dimmt. Ætti hún að kalla á pabba? Nei, ekki vildi hún trufla jólaveisluna vegna svona vitleysisgangs. Pabbi yrði ekki glaður og ekki Kjalnesingarnir heldur. Hún yrði að sækja hann sjálf.

Jæja, þetta yrði ekki mikið verk því hún gat rakið slóð hestsins.

***

Það reyndist erfiðara en hana grunaði. Þegar hún hafði farið yfir lækinn, sem var frosinn, fór að fjúka svo mikið að hún týndi hófförunum. Síðan fór að snjóa aftur og eftir stutta stund var skollin á hríð. Tunglið hvarf af himni og Freydís vissi ekki almennilega hvar hún var stödd. Hún var einhversstaðar í holtunum en hún sá ekki lengur Reykjavíkurbæinn né nokkuð annað í kring um sig.

Hún hélt áfram að kalla: „Máni! Máni!“ en auðvitað svaraði hesturinn ekki. Hún var orðin blaut, henni var mjög kalt og svo var hún afskaplega þreytt. Hún hugsaði með öfund til hinna barnanna sem lágu sofandi niðri í skála, í mjúkum rekkjum undir hlýjum værðarvoðum.

Hún nam staðar og horfði á snjóskaflana myndast fyrir framan hana. Þeir virtust líka afskaplega mjúkir. Kannski ætti hún að leggjast og hvíla sig, bara andartak, þá yrði hún hressari á eftir. Hún velti þessu aðeins fyrir sér á meðan snjóinn skóf í kringum fætur hennar. Hún gat ekki tekið ákvörðun, það var eins og ískaldur hausinn hennar virkaði ekki rétt. Ætti hún að ganga aðeins lengra? Bara örfá skref og svo gæti hún hvílt sig. Hún ákvað loks að gera þetta en þegar hún ætlaði að halda af stað rakst hún á eitthvað stórt og óbifanlegt.

Hún hélt að þetta væri tré, en þegar hún leit upp sá hún að það var maður. Fyrst sá hún bara þykkar vaðmálsbuxur og stóra gráa ullarpeysu. Auðvitað brá Freydísi skelfilega og líklegast hefði hún tekið á rás út í buskann en það var sem hún væri lömuð af hræðslu. Var þetta skelfilegur draugur sem ætlaði að hrella ábúendur Reykjavíkur? Þegar hún leit enn hærra upp sá hún andlitið á karlinum en ekki var það draugslegt að sjá. Hann var með rjóðar kinnar, rautt nef og gríðarlegt snjóhvítt skegg sem flaksaði í vindinum. Á kollinum var hann með húfu dregna niður á enni og undan henni stóð hvítur hárlubbi svo mikill að hún sá ekki nema annað augað hans. Hann var með poka á bakinu.

„Hvað í ósköpunum er þetta?” rumdi í karlinum. „Hver ert þú góða mín og hvað ertu að gera úti um miðja nótt í þessu veðri?”

„Hver.. hver ert þú?” stamaði Freydís á móti.

„Ég spurði fyrst”, sagði karlinn og hún heyrði næstum því hlátur í röddinni hans.

„Ég heiti Freydís, ég kem frá Reykjavík og ég er að leita að hestinum mínum.” Hún þurfti að hrópa því að snjóhríðin versnaði stöðugt.

„Hestinum þínum?” spurði karlinn.

„Já, hann slapp úr gerðinu. Hann er hvítur og heitir Máni. Hefur þú nokkuð séð hann?”

„Ja það er nú það,” svaraði ókunnugi maðurinn. „Er það nokkuð þessi?” Hann steig til hliðar og fyrir aftan hann stóð hesturinn. Karlinn var með svo mikla bumbu að hann hafði alveg skyggt á hrossið.

„Máni!” hrópaði Freydís og allur óttinn og öll þreytan gleymdist. Hún þaut að hestinum sínum og vafði höndunum um hálsinn hans. „Æ Máni elsku Máni, ég hafði svo miklar áhyggjur,” sagði hún og strauk honum um höfuðið. Hún leit svo til ókunnuga karlsins sem virtist brosandi undir skegginu. „Hvar fannstu hann?”

„Hann var hérna í reiðileysi. Ég held hann hafi verið rammvilltur.”

„Ég er líka villt,” viðurkenndi Freydís. „Ratar þú til Reykjavíkur?”

Karlinn starði út í hríðina. „Það held ég nú, en við ættum samt að bíða þar til veðrinu slotar örlítið. Það er hættulegt að ferðast við svona aðstæður. Komið þið, ég veit um góðan stað.” Hann snéri sér við og gekk af stað, Freydís og Máni eltu.

Eftir skamma stund komu þau að stóru rofabarði sem slútti fram og þegar þau voru komin inn undir það var það eins og lítill hellir.

„Hér ættum við að vera örugg um sinn,” sagði ókunnugi maðurinn og hlammaði sér niður. Freydís stóð hjá og var enn dálítið óörugg.

„Hver ertu og hvaðan kemur þú? Varstu á leiðinni til Reykjavíkur? Kemur þú langt að?”

Karlinn glotti. „Þetta eru aldeilis margar spurningar. Jú, ég kem vissulega langt að.”

„Frá Kjalarnesi?”

„Lengra en það.”

Freydís átti erfitt með að trúa þessu því hún þekkti engan stað sem var lengra í burtu en Kjalarnes. „Varstu á leiðinni til Reykjavíkur? Var þér boðið til veislunnar?”

„Já eiginlega”, svaraði karlinn. „En ég er líklegast orðin dálítið seinn og ef til vill yrði mér ekki hleypt inn.”

„Hvað heitirðu eiginlega?”

Hann klóraði sig í skegginu. „Ég hef nú verið kallaður ýmsum nöfnum. Sumir nefna mig Ganglera, aðrir Forna, Grímni eða… “

„Má maður þá ráða nafninu þínu?“

„ Ja, líklega er það svo. Ég hef aldrei verið spurður.“

„Fínt, þá ætla ég að kalla þig Jóla“ sagði Freydís og settist hjá karlinum.

„Jóla? Af hverju Jóla?“

„Af því þú komst á jólunum.“

„Já ég skil,“ hann hló. „Þetta er reyndar ekki ósvipað einu nafni sem ég… “

„Ég er svöng, áttu eitthvað að borða?“ greip Freydís frammí.

„Ha? Borða? Jú, bíddu nú við.“ Hann tók fram pokann sinn, stakk hendinni ofan í hann og dró upp eitthvað sem líktist gullitaðri gorkúlu.

„Hvað er þetta?“ spurði hún tortryggin.

„Þetta er epli“, svaraði Jóli stoltur.

„Hvað er það?“

„Epli? Ja, það er… um… það er svona aldin.“

„Eins og krækiber?“

„Ekki alveg eins, dálítið svipað.“

Freydís potaði varlega í eplið. „Þá vil ég það ekki,“ sagði hún.

„Af hverju ekki?“

„Mamma segir að maður eigi aldrei að borða aldin á þessum árstíma. Í fyrra fann ég krækiber á lyngi snemma í þorranum, en þegar ég borðaði þau voru þau ógeðsleg. Ég fékk illt í magann. Áttu nokkuð harðfisk?“

„Harðfisk? Bíddu nú við, ég held ég eigi nú hálfan sporð hérna einhversstaðar.“ Aftur kafaði Jóli ofan í pokann sinn, hann fann loksins harðfiskinn og rétti Freydísi.

„Takk fyrir“, svaraði hún og byrjaði strax að naga sporðinn. Hún leit upp til Jóla sem hafði tekið ofan húfuna og strokið hárinu frá enninu. Hún sá að hann var með stóran og mikinn leðurlepp yfir vinstra auganu.

„Hvað kom fyrir augað á þér?“ spurði hún. „Meiddir þú þig?“

„Ekki beint,“ svaraði Jóli. „Ég seldi það.“

„Hvað?“

„Augað.“

„Er það hægt?“

„Já, já. Það eru til þeir sem hafa mikinn áhuga á að kaupa svoleiðis hluti.“

„Græddirðu eitthvað á því?“

„Á vissan hátt. Að minnsta kosti sé ég miklu betur með auganu sem er eftir.“

„Aldrei myndi ég gera svona,“ sagði Freydís og kyngdi harðfiskbita. „Heyrðu, þetta er dálítið þurrt, áttu eitthvað að drekka með?“

Jóli virtist fyrst dálítið ringlaður við það að skipta svona ört um umræðuefni en svo glaðnaði yfir honum . Hann dró fram skinnflösku með fallega skreyttum stút. „Hérna er einstaklega fínn mjöður sem á engan sinn líka. Einn sopi af þessu og þér verður aldrei orða vant.“

„Nei takk“, svaraði stelpan og fitjaði uppá nefið. „Einu sinni sá ég afa drekka mjöð. Hann varð mjög skrýtinn og fór bara að bulla. Þetta er allt í lagi, ég fæ mér bara snjó.“ Hún greip lúkufylli af snjó, stakk honum uppí sig og maulaði með harðfisknum.

Þegar hún var búin að borða hallaði hún sér betur upp að Jóla. Það var merkilegt hvað hann var hlýr, eins og steikingarsteininn í eldstæðinu heima í skálanum. Sá steinn var heitur löngu eftir að eldurinn ofan á honum hafði kulnað. Jóli var svoleiðis, það geislaði af honum hitinn. Þegar Freydís sat þétt upp við hann fann hún ekki fyrir kuldanum.

„Getur þú sagt mér sögu?“ spurði hún.

Jóli virtist hissa. „Hvernig sögu?“

„Bara einhverja. Mamma eða pabbi eru alltaf vön að segja mér sögur eftir matinn, áður en ég fer í háttinn.“

„Jæja þá,“ sagði karlinn og hann sagði henni sögu, reyndar sagði hann henni tvær. Þetta voru skrýtnar sögur sem Freydís skildi ekki alveg. Önnur fjallaði um mann sem var hengdur uppí tré en hin um orm sem skreið í gegnum fjall til að stela einhverju.

Þegar líða tók á seinni söguna fór Freydís að dotta enda var hún ákaflega þreytt. Rétt áður en hún sofnaði alveg sagði Jóli: „Freydís litla.“

„Humm, já?” umlaði hún.

„Ég verð að segja að ég er nokkuð ánægður með þig. Þú ert dugleg, ákveðin, hughrökk og þér þykir vænt um hestinn þinn. Ég kann vel að meta það því ég á sjálfur hest sem ég held mikið uppá. Ekki vildi ég vita af honum einum úti á víðavangi, ekki frekar en þú honum Mána þínum.”

„Hvað heitir hesturinn þinn?” spurði Freydís lágt um leið augnlokin sigu neðar og neðar.

„Sleipnir.”

„Það er fallegt nafn.”

„Þakka þér fyrir”, sagði Jóli. Hann þagði andartak en svo hélt hann áfram: „Veistu, ég er ekki vanur að gefa gjafir, ekki í seinni tíð. Samt langar mér til að gefa þér dálítið, eitthvað sem minnir á vorið og gróandann og lífið sem kviknar með hækkandi sólu.”

„Hvað er það?” spurði Freydís lágt með lokuð augun.

„Bíddu nú við”, svaraði hann og gramsaði enn og aftur í pokanum sínum. Hann dró loks upp gjöfina. „Gjörðu svo vel,” sagði hann hróðugur og rétti Freydísi en hún var þá steinsofnuð.

***

Hún vaknaði í rekkjunni sinni. Mamma og pabbi stóðu yfir henni, það var áhyggjusvipur á mömmu en pabbi var brosandi.

„Góðan daginn Freydís mín”, sagði hann. „Velkomin á fætur.”

Hún settist upp og horfði ringluð í kringum sig. „Er ég komin heim? Hvað gerðist?”

„Við fundum þig í morgun austur í holtunum. Þú hafðir komið þér fyrir undir moldarbarði og rumskaðir varla þegar þú varst sótt”.

Mamma settist á rúmstokkinn hennar og strauk henni um vangann. „Við höfðum svo miklar áhyggjur elskan, þegar það uppgötvaðist að þú varst horfin. Allir veislugestirnir fóru að leita”.

„Kjalnesingarnir líka?” spurði Freydís.

„Já, Kjalnesingarnir líka.”

„Voru þeir nokkuð reiðir?”

„Nei” sagði mamma brosandi. „Það voru allir fegnir þegar þú fannst.”

„Hvar varstu annars að þvælast þarna í þessu illviðri?” spurði pabbi.

„Hliðið fauk upp og hestarnir sluppu úr gerðinu,” svaraði Freydís. „Ég náði þeim öllum inn nema Mána, hann fór á flakk og ég gat ekki skilið hann einan eftir í myrkrinu.”

„Þetta grunaði mig. Af hverju kallaðir þú ekki í okkur?”

„Ég vildi ekki skemma jólaveisluna. Svo á ég hann Mána og það er mitt að hugsa um hann”.

„Nú já”, sagði pabbi. „Að minnsta kosti er ég fegin hann var þarna. Hann stóð við hliðina á þér og því var auðveldara að finna þig. Þetta hross er greinilega ekki alvitlaust”.

„Hann Máni er ekki vitlaus”, mótmælti Freydís. „Hann er bara dálítið æstur. En svo hjálpaði Jóli líka til”.

„Jóli? Hver er Jóli?”

„Gamall karl sem ég hitti. Hann fann skjólið og svo gaf hann mér harðfisk”.

„Hét þessi karl Jóli?”

„Nei, það var það sem ég kallaði hann. Hann sagðist heita… um… Gang… Gangleri.”

Mamma og pabbi litu hvort á annað. „Já hann”, sagði pabbi og glotti.

„Þekkir þú þennan mann?” spurði Freydís.

„Ja, ég hef aldrei hitt hann en hef heyrt af honum.”

„Hann er víst búinn að vera hérna nokkuð lengi,” bætti mamma við. „Ég held hann hafi komið með sömu skipunum og afi þinn og amma.”

„Er það?” sagði Freydís undrandi. „Mér þótti mjög gaman að hitta hann, þó hann segði skrýtnar sögur.” Allt í einu mundi hún eftir dálitlu. „Heyrðu, hann gaf mér gjöf!”

„Nú? Hvernig gjöf?”

„Ég veit það ekki, ég hef ekki séð hana. Funduð þið hana ekki?”

„Ég sá ekkert,” sagði pabbi Freydísar.

Hún settist enn betur upp í rekkjunni og fór að leita umhverfis sig eins og hún ætti von á að gjöfin lægi í rúminu. Hún fann ekki neitt fyrr en hún strauk vinstri hendinni upp eftir hægri handleggnum. Hún var enn klædd í nátttreyjuna frá kvöldinu áður og þegar hún bretti upp ermina kom í ljós armbaugur úr skínandi silfri. Freydís var með svo mjóa handleggi að baugurinn hafði runnið upp að olnboga.

Skartgripurinn var ekki breiður en afskaplega fínlegur. Hann var næfurþunnur, svo léttur að hún fann varla fyrir honum. Á baugnum var brún eftir miðjunni og sitthvoru megin við hana voru ótal agnarsmáir þríhyrningar, eins og nýsprottin laufblöð á aski sem lifnar við eftir langan vetur. Þetta minnti á vorið, gróandann og lífið sem kviknar með hækkandi sól.

„Hvað er þetta?” spurði mamma undrandi.

„Þetta er gjöfin,” svaraði Freydís skælbrosandi. „Gjöfin frá Jóla.”

               (Armbaugur á Landnámssýningunni, fannst við fornleifauppgröft í Reykjavík 2013)

Lavander á ferð, (brot úr bókinni).

Þvílík skelfing!

Hetjan okkar, svikahrappurinn Lavander Petrillot, hefur verið fangaður og færður í dýflissu!

En biðin er ekki löng því böðullinn er mættur til að fara með hann á aftökustað.

 

Böðull

Hann var mikill og sver, með þykkar axlir, stórar hendur og svarta hettu á höfðinu. Hann hélt á gríðarmikilli öxi sem blikaði flugbeitt og banvæn.

„Þú!“ hrópaði hann grimmilega og benti á Petrillot. „Þinn tími er kominn.“ Hann dró lykla upp úr pússi sínu, leysti Lavander frá súlunni en batt síðan hendur hans fyrir aftan bak með þykkum leðurþveng. Síðan hrinti hann hinum dauðadæmda út um klefadyrnar.

„Verið þið sælir herrar mínir,“ kallaði Lavander til samfanga sinna að skilnaði. „Það gleður mig að … eh … ég allavegana kynntist ykkur.“

Honum var ýtt áfram eftir dimmum gangi, fyrir horn og síðan annað. Dýflissur Gangur 2hallarinnar voru eins og völundarhús og þeir fóru lengi um raka, illþefjandi ganga áður en sást til sólar.

„Ætlar þú ekki að mæla mig?“ spurði Lavander böðulinn.

„Mæla hvað?“ hreytti maðurinn út úr sér.

„Nú hálsinn auðvitað.“

„Hálsinn? Ég þarf ekkert að mæla hann, bara höggva hann.“

„Jú, auðvitað þarftu að mæla hann,“ sagði Lavander af öryggi. „Þú sérð það sjálfur, ég er með óvenju þykkan háls.“

„Og hvað með það?“ sagði böðullinn. „Heldurðu að ég nái ekki að höggva í gegnum hann?“

„Ég efast ekki um það,“ svaraði hinn dauðadæmdi fangi. „Ég var bara að hugsa um þóknunina þína.“

„Þóknunina?“

„Já, færðu ekki greitt eftir hálsaþykkt?“

Böðulinn vissi ekki hvort hann ætti að hlæja eða reiðast. „Hverslags endemis bull er þetta?“

„Ekkert bull,“ sagði Lavander af einlægni. „Í stórborginni Lyos, þaðan sem ég kem, fá böðlar alltaf greitt fyrir aftökur eftir hálsaþykkt. Það þykir bara sjálfsagt vegna vinnuálags og viðhalds á verkfærum?”

„Viðhalds?“ Böðullinn var orðin verulega undrandi.

„Einmitt, þú sérð það í hendi þér það þarf mun meira afl og átak að höggva í gegnum svera hálsa en mjóa. Þar að auki eru sumir, eins og ég, stórbeinóttir með þétta hálsliði, þannig að það eykur enn á átökin. Í Lyos var það sett í lög að böðlar fengu sérstakar álagsgreiðslur þegar þeir afgreiddu slíka kúnna. Þetta kemur einnig niður á vinnutækjum böðlanna þannig að þeir fá ókeypis brýni og ríflegan afslátt hjá járnsmiðum ef eitthvað þarf að gera við.“

„Hvað ertu að segja?“ undrun mannsins varð stöðugt meiri.

„Færð þú ekkert svoleiðis?“

„Aldeilis ekki! Ég strita á fjandans lúsarlaunum sem breytast ekkert hvort sem ég hegg mjóa eða feita!“

„Aha,“ sagði Lavander. „Jafnaðarkaup.“

„Fjandans jafnaðarkaup,“ hreytti böðullinn út úr sér. „Ég þarf meira að segja að skaffa mitt eigið brýni.“

Í þessum töluðum orðum stigu þeir í gegnum seinasta steinbogann og út í sólarljósið. Þeir gengu inn í lítinn malarlagðan garð í miðju hallarinnar. Aftökupallur og Presturhöggstokkur stóðu í garðinum.

Uppi á pallinum var æðstiklerkurinn ásamt öðrum klerkum og altarisþjónum. Æðstiklerkurinn gekk við staf og hélt á splunkunýjum  sprota með útskornu eyra á endanum.

„Böðull!“ hrópaði hann með skrækri röddu. „Leið þennan arga guðlastara og fyrirlitlega syndara til oss.“

Böðullinn muldraði eitthvað en ýtti svo við Lavander og þeir gengu saman upp á aftökupallinn. Þegar þangað kom beindi æðstiklerkurinn sprota sínum að Petrillot og sagði: „Ég ætla ekki einu sinni að bjóða þér að iðrast, þú óforbetranlegi trúvillingur! Þú hefur svívirt allt það sem heilagt er!“ Hann sneri sér að manninum með öxina. „Böðull, gerðu skyldu þína. Af með höfuðið!“

„Bíddu,“ svaraði böðullinn. „Við þurfum fyrst að tala um hálsinn á honum.“

Þetta kom flatt upp á æðstaklerkinn. „Hálsinn á honum? Hvað meinarðu?“

„Hann er mjög þykkur,“ sagði böðulinn og benti á hálsinn á Lavander.

„Ég sé það, er það eitthvað vandamál?“ spurði æðstiklerkurinn hneykslaður.

„Ég vil fá sérstaklega greitt fyrir þetta. Svona sver háls gæti farið illa með öxina. Veistu hvað tekur langan tíma að brýna svona öxi? Já, og brýni. Ég vil fá nýtt brýni, almennilegt, ekki þetta gamla rusl sem ég þarf að vinna með.“

Æðstaklerknum var ekki skemmt. „Hvað ertu að rugla maður? Nýtt brýni? Á ég að fara að útvega þér nýtt brýni? Og hvað er þetta þvaður um aukagreiðslu? Ég hef aldrei heyrt annað eins!“

„Þá er víst kominn tími til!“ sagði böðulinn. Hann gekk að æðstaklerknum og plantaði sér eins og tré fyrir framan hann. „Það er nóg komið af þessari aumingjalegu þóknun sem ég fæ fyrir allt mitt erfiði. Héðan í frá verður tekin upp sérstök gjaldskrá, fyrir mjóa hálsa, miðlungs hálsa og þykka hálsa. Skerpingar eru ekki innifaldar og þið útvegið brýnin!“

Í nokkrar sekúndur var æðstiklerkurinn orðlaus. „Heyrðu, góði minn,“ sagði hann loksSproti og potaði í böðulinn með sprotanum. „Ef þú ert ekki ánægður með starfsaðstöðu þína og umsamin laun þá gætir þú hæglega verið sá næsti undir öxina!“

„Og hver á að höggva mig?! Ég sjálfur?! Mér þætti gaman að sjá það!“

Hann ýtti við æðstaklerknum, sem potaði aftur í hann. Þannig gekk það á víxl þar til böðullinn missti þolinmæðina, sleppti öxinni, greip í æðstaklerkinn og ætlaði greinilega að láta hann finna til tevatnsins. Hinir klerkarnir og altarisþjónarnir fóru þá að skipta sér að og reyndu að hemja böðulinn. Það var hægara sagt en gert því þetta var kröftugur maður.

Einn altarisþjónninn hentist upp á bakið á manninum og kleip hann í nefið á meðan aðrir gripu um tröllslegar fæturna í þeim tilgangi að fella hann. Á meðan reyndi æðstiklerkurinn að lemja böðulinn með sprotanum en átti erfitt með að ná höggi.

Hamagangurinn á aftökupallinum var svo mikill að engin tók eftir að Lavander Petrillot hafði laumast niður tröppurnar hægt og rólega og var að fikra sig afturábak að útganginum. Skyndilega heyrði hann rödd hvísla fyrir aftan sig:

„Petrillot.“

Hann leit við og sá kunnuglega persónu.

„Vespríus, sæll vertu. Gaman að sjá þig. Hvað ert þú að gera hér?“

Litli maðurinn horfði undrandi á Lavander og enn meira undrandi á slagsmálin uppi aftökupallinum. „Eh … ég kom eiginlega til að bjarga þér.“

„Æ, það var hugulsamt. Heyrðu, ertu með hníf?“

„Auðvitað,“ svaraði Vespríus.

„Viltu vera svo góður að skera á þessa ól, hún er hrikalega óþægileg.“ Hann lyfti upp höndunum fyrir aftan bak og Vespríus byrjaði að skera.

„Hérna … hvað er eiginlega um að vera?“

„Kjaraviðræður,“ svaraði Lavander. „Þegar ég sé svona nokkuð er ég feginn að vera sjálfstætt starfandi.“