(Martine er svikahrappur og ein af persónunum úr bókinni “Lavander á ferð”. Hérna er sjáfstæð saga um hana)
Snemma morguns var Martine á hnjánum niðrí í kjallara að skúra.
Hún einbeitti sér þó lítið að skúringunum því perlur áttu hug hennar allan. Það hana skipti litlu máli hvort gólfin væru vel eða illa skúruð, það var ekki hennar æðsta markmið í lífinu. Þar að auki ætlaði hún ekki að stunda þetta mikið lengur. Hún þyrfti bara að ná perlunum og gæti síðan hætt þessu púli fyrir fullt og allt.
Ef perlurnar sem hún var að sækjast eftir hefðu verið venjulegar eða settar í einhvern lítinn skartgrip, eins og hring eða eyrnalokka, hefði það varla verið ómaksins virði. En það sem hún hafði augastað á var allt annað og mun stærra.
„Hvað er að sjá þetta?“ spurði frekar óvingjarnleg rödd fyrir ofan hana. „Hvað lærðir þú að skúra stelpa? Kanntu það yfirleitt?“
Martine leit upp, grámyglulegt, hvasst og gagnrýnið andlit undirvinnukonunnar hékk yfir henni.
„Fyrirgefðu frú,“ sagði Martine og tók harðar á skrúbbnum. Eins gott að láta lítið fyrir sér fara. Ekki vildi hún að undirvinnukonan færi að kalla á yfirvinnukonuna sem myndi þá hugsanlega kalla á ráðskonuna!
Goggunarröðin á þessum heldra manna heimilum var hrikalega flókin og gat verið skaðleg þjófum og svikahröppum eins og henni. Martine skrúbbaði áfram að krafti í nokkrar mínútur en gjóaði síðan augunum til hliðar. Undirvinnukonan hafði ákveðið að gagnrýni hennar hafði skilað árangri og farið til þess að ónáða annað þjónustufólk.
Martine leit upp, þarna var glugginn út á götu sem hún var að fylgjast með og ástæða þess að hún var þarna á hnjánum með skrúbbinn í höndunum. Kjallarinn var besti staðurinn til þess að fylgjast með glugganum og mannaferðum fyrir utan. Þegar rétta manneskjan gengi framhjá væri það merki um að Martine hefði örfáar mínútur til þess að ná perlunum.
***
Perlurnar hafði hún séð fyrir tæpum mánuði, hangandi á Igenaux markgreifafrú. Þetta var ansi stór festi, líklegast fimm fet því frúin var allt annað en horuð og perlufestin var vafin þrjá hringi um hálsinn hennar og hékk auk þess niður á maga.
En það var ekki lengdin sem hafði fangað athygli Martine, það var nóg til af löngum perlufestum, það voru gæðin. Markgreifafrúin hafði verið að stíga út um aðaldyr óperuhússins og Martine var fyrir utan, dulbúin sem blómasölukona. Þegar hún sá skjannahvítan glampa og mikla stærð perlnanna vissi hún að þetta var alveg einstök festi. Drifhvíti liturinn og ummálið gáfu til kynna að þetta væru hreinar Cantabarperlur, þær verðmætustu sem völ var á.
Martine var fljót að reikna, fimm fet hljóðaði upp á nokkrar milljónir. Hún tók ákvörðun á staðnum: Þessa perlufesti yrði hún að fá.
Að fanga þær lá í aðferðinni. Það voru nokkrir möguleikar, en ekki allar sem hentuðu.
Einfaldast og grófast var bara að ryðjast að frúnni, rífa af henni festina og stinga svo af. Auðvitað myndi það aldrei ganga, hún sá að markgreifafrúin var með tvo lífverði meðferðis og þó þeir væru ef til vill ekki fljótir að hlaupa gætu þeir gert borgarvaktinni viðvart. Í þessu fína hverfi voru vaktmenn á hverju götuhorni, til vernda aðalinn frá ótýndu þjófapakki.
Það voru ekki átökin sem hún óttaðist. Martine var nokkuð vopnfim og kunni að slást, en hún vildi bara ekki þurfa að standa í svoleiðis. Í þessu starfi var fátt öruggt. Hún gæti, fyrir slysni eða klaufaskap, verið handtekin hvenær sem er og það var allt annað að sitja af sér dóm fyrir hnupl eða fyrir líkamsárás, hvað þá manndráp. Slíkt myndi enda hjá böðlinum og það voru leiðinlegir karlar sem hún vildi alls ekki hitta.
Annar möguleiki vað að komast að því hvar frúin byggi, brjótast inn og stela festinni. Ágætis áætlun en hentaði heldur ekki. Martine var ekki innbrotsþjófur, engin sérfræðingur í að klifra upp niðurfallsrör eða opna peningaskápa. Það var nokkurn vegin öruggt að þessi dýrmæta festi væri geymd í einum slíkum.
Þriðji möguleikinn var sá besti og sá sem hún hafði beitt oftar en einu sinni. Hún myndi ráða sig í vinnu á heimili markgreifafrúarinnar.
***
Það reyndist lygilega auðvelt. Þessi stóru heldrimannaheimili í Lyosborg voru mannmörg, þó að fjölskyldurnar voru ekkert sérlega stórar. Í húsi Igenaux markgreifafrú bjuggu hún og markgreifinn, dóttir þeirra og sonur, auk föðurs markgreifans. En utanumhaldið um húsið, garðinn og þessar fimm manneskjur var gríðarmikið. Alls voru um tuttugu og sjö þjónar og þjónustustúlkur á heimilinu, einkaþjónar, húsþjónar, hestasveinar, matráðskona, garðyrkjumaður og svo lífverðirnir tveir.
Þau sem voru í efstu stöðum þjónustuliðsins höfðu verið þarna árum saman, en neðstu þrepunum var skipt út mjög reglulega. Sumar stúlkurnar stóðu sig illa í starfi, urðu ófrískar eða giftu sig, stundum hvorutveggja, og þá losnuðu stöðurnar.
Martine var ekki lengi að komast að því að heimilinu vantaði allrahanda þernu og hún stökk til. Það var leikur einn því hún átti heilan haug af fölsuðum meðmælabréfum sem hentuðu við öll tækifæri.
Eftirleikurinn var síðan nokkuð hefðbundinn, byrja að vinna, fylgjast vel með, snuðra, skrá niður allt mynstur er tengdist frúnni og perlunum hennar og bíða síðan færis. Auðvitað var þetta þolinmæðisvinna og gat oft tekið á taugarnar, en Martine átti þó von á því að græða nokkrar milljónir fyrir mánaðarstarf. Ekki slæmt tímakaup það.
Hún leit aftur upp frá skrúbbnum að glugganum. Eftir nokkrar mínútur myndi frúin koma heim ásamt hundinum sínum og öðrum lífverðinum. Það var regla hjá frúnni að fara út í gönguferð með hundinn fyrir morgunmatinn, ef veður leyfði. Þegar hún kæmi aftur myndi hún fyrirskipa verðinum að leggja seppa í bælið sitt en sjálf myndi hún fara með einkaþernunni sinni í svefnherbergið uppi á annarri hæð. Þar myndi þernan hjálpa þeirri gömlu að skipta um föt og skartgripi. Markgreifafrúin dressaði sig alltaf upp, jafnvel þegar hún fór með hundinn út að ganga. Hálsmen og eyrnalokkar yrðu sett í rammgerðan stálskáp og annað skart, sem frúin ætlaði að nota yfir daginn, yrði tekið út.
Þarna myndaðist glufa, sem Martine hafði fylgst með úr leyni. Þernan opnaði stálskápinn, lagði skartgripi inn í hann og tók aðra út. Hún gekk með þá nýju að snyrtiborði frúarinnar, sem var í öðrum hluta svefnherbergisins, snéri síðan til baka, lokaði skápnum og læsti honum.
Þetta örstutta augnablik, þegar hún var með bakið í stálskápinn, var ef til vill ekki nema þrjátíu sekúndur, en það myndi nægja Martine.
Það heyrðist fótatak frá götunni og hún leit upp. Í gegnum glerið sá hún fætur frúarinnar strunsa framhjá. Á eftir komu fætur hundsins, sem var heljarstór órískur úlfhundur. Á eftir dýrinu kom einkaþernan, settleg, miðaldra og ákveðin kona og síðan annar lífvörðurinn. Það var varla þörf á á vera með tvo lífverði þegar frúin var með hund sem gæti auðveldlega étið ólánsama þjófa.
Martine sleppti skrúbbnum, hann datt með skvampi ofan í skúringarfötuna. Það var komið að því.
Hún stóð upp og leit í kringum sig. Undirvinnukonan var löngu farin og engin sjáanlegur, Martine tók því á rás. Hún hljóp eftir endilöngum kjallaranum og að mjóum stigagangi. Það voru tveir stigar í húsinu, aðalstigin og síðan þessi sem var ætlaður þjónustufólki. Hún var klædd skósíðu pilsi sem var hluti af einkennisbúningi hennar, hrikalega fyrirferðamikill klæðnaður. Hún hífði pilsið upp fyrir hné, hljóp upp stigann og tók tvær tröppur í einu.
Hún mætti engum á leiðinni, sem betur fer. Á stigapallinum á fyrstu hæðinni var hurðin að lokast, þannig að hún dokaði nokkrar sekúndur áður en hún hljóp áfram uppá aðra hæð. Þar opnaði hún dyrnar varlega og gægðist fram á gang. Engin sjáanlegur, en hún heyrði fótatak frá hinum enda gangsins og vissi að frúin og þernan hennar væru að nálgast.
Martine skaust inn ganginn að svefnherbergisdyrum frúarinnar. Hún opnaði varlega, dyrnar voru ólæstar enda var önnur þjónustustúlka nýbúin að vera þar inni við að þurrka af. Martine stökk hljóðlaust inn og lokaði á eftir sér.
Markgreifafrúin átti þetta svefnherbergi ein, hjónin sváfu ekki saman. Herbergið var tvískipt, í fremri hlutanum var himnasængin, snyrtiborðið og lítið teborð, í aftari hlutanum voru fatageymslur og svo blessaður stálskápurinn. Martine flýtti sér þangað.
Fataskáparnir voru þrír, misdjúpir. Sá stærsti var fyrir kjóla frúarinnar, annar fyrir skó og yfirhafnir og sá þriðji fyrir náttklæði og undirföt. Martine opnaði þann síðastnefnda og smeygði sér inn. Að kalla þetta fataskáp var rangnefni, þetta var eins og lítið herbergi með hillum og hólfum fullum af silkifíneríi. Hún hafði valið að fela sig inn í þessum skáp að augljósum ástæðum. Þó að sú gamla myndi fara úr kápunni og skipta um kjól var ólíklegt að hún þyrfti að fara í hreinar nærbuxur, nema hún hefði lent í verulegum æsingi í hundagöngunni.
Nú var bara að bíða og hlusta. Það var ekkert að sjá því það var niðamyrkur inní skápnum og Martine vildi ekki einu sinni gera litla rifu. Einkaþernan var skarpskyggn og gæti tekið eftir því.
Það heyrðist þegar þær komu inn í svefnherbergið og frúin gaf einhver fyrirmæli. Nokkra mínútur liðu, síðan kom fótatak einkaþernunnar: „Klopp, klopp, klopp“ svo annað hljóð: „Klikk, klakk, klonk.“
Þernan var að opna stálskápinn!
Martine beið, sekúndur liðu, „Klopp, klopp, klopp“ og hún opnaði dyrnar af ofurvarlega. Hún sá í bakið á þernunni og steig hljóðlaust fram úr skápnum. Þrjú skref og hún var fyrir framan opinn stálskápinn. Fyrirbærið var boltað í vegginn, sem skipti víst litlu máli því þessi hlunkur var líklega nokkur hundruð kíló.
Inni í skápnum voru ótal skartgripabox, sum löng, sum stutt, sum kringlótt. Eitt af þeim innihélt perlurnar og Martine vissi nákvæmlega hvaða. Það var mjög stórt og hringlaga , á stærð við kökubox, klætt rauðu flaueli. Hún opnaði það, hrifsaði innihaldið, lokaði boxinu og skaust aftur inní nærfataskápinn.
„Klopp, klopp, klopp“. Þernan var að koma tilbaka.
„Klikk, klakk, klonk.“ Hún lokaði skápnum og hafði greinilega ekki tekið eftir neinu. Stórkostlegt! En nú tók við það mest taugastrekkjandi, biðin í myrkrinu eftir að sú gamla væri búin að skipta um föt og farin aftur niður, ásamt þernunni sinni, að fá sér morgunmatinn.
***
Hún var lengi inn í skápnum, Martine fannst tíminn silast áfram. Hún heyrði í þeim frammi, þegar einkaþernan dró fram hvern kjólinn á fætur öðrum þannig að frúin gæti mætt í morgunmatinn sómasamlega klædd. Loks komst einhver niðurstaða í þetta leiðindamál og hún heyrði þær yfirgefa svefnherbergið. Hún beið samt í korter til viðbótar, bara til þess að vera örugg. Það var aldrei að vita en kerlingin gat snúið aftur ef hún hafði gleymt mikilvægum vasaklút eða einhverju slíku.
Loks gægðist Martine fram. Hún sá engan þannig að hún steig fram og gekk hljóðlaust að svefnherbergisdyrunum. Hún leit fram á gang, engin var á ferli þannig að hún gekk einfaldlega út og lokaði á eftir sér.
Það var allt og sumt. Áætlunin hafði tekist, mánaðar skúringarvinna að baki og hún orðin moldrík. Það eina sem var eftir var að yfirgefa þetta leiðindahús og koma perlufestinni í verð. Það yrði barnaleikur, hún þekkti fleiri en einn skuggalegan karakter sem gætu tekið við góssinu , þótt hún yrði að greiða tíu prósent umsýslugjald.
Það skipti engu, Martine var ekki það mikil aurasál að hún færi að röfla um smámuni. Einu vandræðin á þessu augnabliki var perlufestin sjálf. Inni í fataskápnum hafði hún strax orðið þess vör að það var erfitt að eiga við þessi fimm fet. Þetta var eins og kaðall! Hvernig fór sú gamla að því að bera þetta?
Ekki gat Martine vafið þessu um hálsinn á sér og þetta var of fyrirferðamikið til að troða í vasa. Hún hafði áætlað að fela festina innanklæða, kannski vefja henni um mittið, en það gekk ekki. Perlurnar voru of stórar og sleipar þannig að ekki var hægt að hnýta festina saman. Ef hún vöðlaði henni upp væri bunga á búningnum og ef hún léti hana hanga myndi hún lafa niður á gólf.
Að lokum fann hún einskonar lausn með því að troða hluta perlnanna inn um strenginn á sokkabuxunum og lét restina dingla milli fótanna. Þetta var hrikalega óþægilegt og þegar hún hreyfði sig byrjuðu perlurnar að renna smátt og smátt uppúr sokkabuxunum. Fjandinn hafi það! Hún yrði bara að komast út sem fyrst og …
„Þarna ertu þá!“ sagði hvöss rödd fyrir aftan hana. Martine snérist á hæli, yfirvinnukonan stóð þar með fangið fullt af rúmfötum. Hún var ekkert svipfegurri en undirvinnukonan og eiginlega verri því hún hafði meira völd.
„Varst þú ekki að skúra í kjallaranum?“
„Ég var búin,“ svaraði Martine með eins mikilli undirgefni og frekast var hægt. „Undirvinnukonan sagði að ég ætti að athuga hvort ekki þyrfti að skúra háaloftið.“
„Háloftið? Hvurslags vitleysa er það?“ svaraði undir vinnukonan hneyksluð. „Það er ekki skúrað á þessum árstíma, þar er bara geymsla.“
„Æ, fyrirgefðu, ég hlýt að hafa misskilið,“ sagði Martine bljúg og snéri sér til þess að fara.
„Andartak góða mín.“ Undirvinnukonan steig nær og þrýsti rúmfötunum í fangið á Martine sem kiknaði undan þunganum. Undirvinnukonan var sver, mikil og nautsterk. „Óþarfi að láta ferðina fara til spillis,“ sagði hún, „Farðu með þetta niður í þvottahús, ég hef öðrum skyldum að gegna.“
„Sjálfsagt,“ svaraði Martine glöð þrátt fyrir þungan. Hún var hvort eð er á leiðinni niður.
Hún staulaðist með fangið fullt að bakstiganum. Eftir nokkur skref þurfti hún að stoppa því perlurnar voru byrjaðar að síga aftur. Hún leit við, undirvinnukonan starði tortryggin á hana.
„Þungt,“ sagði Martine afsakandi, fikraði sig að stigapallinum og flýtti sér eins og hún gat niður.
Á jarðhæðinni kastaði hún þvottinum á gólfið og lagaði perlurnar innan á sér. Bakdyrnar voru nokkra metra frá stigapallinum, hún þaut að þeim, opnaði hurðina og … sá þrjá vaktmenn á gangstéttinni rétt fyrir utan.
Fjandans óheppni! Þetta kom henni samt ekki á óvart því þarna var krökkt af vopnuðum vaktmönnum. Borgarvaktin var mjög sýnileg og áberandi í Savallion, sem var jú ríkasta hverfi Lyosborgar.
Þeir komu auga á hana, kinkuðu kolli vinalega og einn þeirra sagði: „Góðan daginn fröken.“
„Góðan daginn,“ svaraði hún. Hún rétti fram lófann og horfði upp í himininn eins og hún væri að gá til veðurs, síðan fór hún aftur inn og lokaði á eftir sér. Hún gæti ekki einfaldlega strunsað út á götu, yfirhafnalaus og í þjónustubúningnum, það yrði allt of grunsamlegt og gæti vakið áhuga vaktmannanna.
„Hvað er þessi þvottur að gera hérna“? spurði karlmannsrödd, það var einkaþjónn markgreifans.
„Fyrirgefðu herra. Ég var á leið með hann niður í þvottahús en klæjaði skyndilega í nefið.“
„Ja, láttu hann ekki liggja hérna. Ég var næstum því dottin um hann!“
„Já, herra,“ sagði Martine. Hún tók upp þvottinn og staulaðist með hann niður í þvottahús. Hún var nýbúin að losa sig við hann og var á leiðinni aftur upp þegar hún rakst aftur á undirvinnukonuna.
„Þarna ertu þá stúlka! Hérna, taktu þetta!“ Hún rétti Martine kolafötu. „Það þarf að kynda hjá unga herranum. Hann var á næturfundi með vinum sínum og við gætum átt von á honum á hverri stundu.“
„Já, fröken,“ sagði Martine. Hún bölvaði í hljóði og lagði af stað aftur upp stigann. Hún yrði að finna einhverja leið út úr þessu húsi, án þess að nokkur tæki eftir því. Líklegast væri best að bíða aðeins og reyna að finna sennilega afsökun. Kannski gæti hún boðist til að fara í sendiferð.
Hún rogaðist með kolafötuna upp á aðra hæð, inn ganginn framhjá svefnherbergi frúarinnar og fór inn í herbergi unga herrans. Hann var yngsti sonur markgreifahjónanna, algjör iðjuleysingi, eins og flest af þessu fólki, en líka drykkjurútur. Ef undirvinnukonan sagði að hann hefði verið á næturfundi þýddi það líklega fyllerí.
Martine bisaðist með kolafötuna að arninum, lagaði perlurnar enn og aftur og velti því fyrir sér hvort hún ætti nokkuð að nenna að kynda upp. Þeim vangaveltum var eytt þegar hún heyrði dyrnar opnast fyrir aftan sig.
„Nei sko, hvað finn ég hér?“ spurði drafandi rödd unga herrans. Martine leit snöggt við og hún sá hvar hann gekk inn í herbergið. Hann var klæddur í samkvæmisfatnað en krumpaður og tuskulegur eins og hann hefði sofið í þeim. Hann var líka órakaður, virðulega yfirvaraskeggið ógreitt og olíuborið hárið hans stóð út í loftið. Vínstybban kom á undan honum eins og brimbrjótur á skipi.
Hann var í sjálfu sér ekkert ómyndarlegur ungur maður, grannur og þokkalega formaður. En hann hafði bara öll þessi karaktereinkenni fyllibyttunnar, sem gerðu hann verulega slepjulegan þegar hann var fullur og ósanngjarnan þegar hann var þunnur.
„Góð … góðan daginn herra,“ sagði hún undirgefin og vonaði svo innilega að fíflið léti sig í friði. Henni sýndist það vera borin von.
„Þetta er heldur betur góður dagur, að minnsta kosti fyrir mig að finna svona yndisrós í svefnherberginu mínu.“ Hann reyndi að blikka hana en það tókst ekki vel. Annað augað lokaðist eins og hann hefði fengið í það sandkorn, tungan stakkst út um munnvikið og hann varð allur skakkur í framan. Áhrifin minntu á flogaveiki og voru álíka spennandi.
„Er allt í lagi herra?“ spurði hún.
„Auðvitað er allt í lagi,“ sagði hann þvöglumæltur og blikkaði með hinu auganu, það var ekkert betra. „Gæti ekki verið betra þegar maður hittir fyrir svona þokkadís.“ Hann reyndi að faðma hana en hún vér sér undan.
Hann hafði dálítið sérstakan smekk á konum þessi ungi herra. Martine vissi að hún liti ekki út sem nein þokkadís, hún gerði meira að segja sérstaklega í því. Það var nauðsynlegt fyrir það dulargervi sem hún bar að vera bæði venjuleg og óspennandi. Þess vegna var hún alveg ómáluð með augabrúnirnar svo mikið plokkaðar að þær voru næstum því ósýnilegar. Hún hafði litað ljósa hárið sitt dauf-brúnt og bundið það í óklæðilegan hnút og síðan hafði hún saumað létta ullarpoka innan í búningin sinn svo hún virtist bæði flatbrjósta og með stóran afturenda.
Hvernig átti hana að gruna að þetta var ákkúrat týpan sem heillaði unga herrann? Líklegast var þarna komin ein ástæðan fyrir því að það þurfti oft að skipta um ungar vinnukonur á heimilinu.
„Ég skal segja þér Marine …“ hélt hann áfram.
„Martine,“ leiðrétti hún.
„Já einmitt. Ég skal segja þér að það er eitthvað svo sérstaklega heillandi við þig. Þegar ég horfi á andlitið þitt, eins og tungl í fyllingu, sé ég heilu ættbogana af verkakonunum. Grófar og sveittar stritið þið fyrir lífskjörunum, með sigg á höndunum og dauf augu en samt svo kynþokkafullar að maður gelúmf.“
Martine hafði fengið nóg og hún kýldi hann. Það kom henni sjálfri nokkuð á óvart, en hún gat bara ekki hlustað á þetta kjaftæði lengur. Hún lét vaða beint á túlann á honum þannig að hann steinlá auk þess sem hann rakst utan í stól og rotaðist.
Ansans, hugsaði hún, þetta gerir málið ekkert auðveldara. Hún vissi ekki hversu lengi hann lægi í rotinu en um leið og hann rankaði við sér myndi hann örugglega láta ófriðlega. Hún yrði að komast út og það strax! En ekki gat hún látið hann liggja þarna þannig að hún dröslaði honum inn á baðherbergið, batt hann við klósettið og tróð tusku upp í hann. Þetta myndi kannski kaupa nokkrar mínútur.
Martine flýtti sér síðan að hurðinni og leit varlega út. Hún lokaði henni strax aftur því að annar lífvörður frúarinnar var að koma eftir ganginum. Hvað var hann að vilja uppá dekk? Það var sjaldgæft að lífverðirnir voru að væflast upp á annarri hæðinni. Var hann að ná í unga herrann? Eða kannski að leita af henni sjálfri?
Hvað sem það var þá gat hún ekki farið að ganga í flasið á honum. Hún snéri sér við og fór að glugganum. Það var ansi langt niður en löng sylla fyrir utan gluggann. Kannski gæti hún fikrað sig eftir henni yfir að næsta eða þarnæsta glugga og sloppið þannig við lífvörðinn.
Hún ákvað að reyna, en þetta var ekki auðvelt. Syllan var ekkert sérstaklega breið og hún var ekki fyrr komin út á hana þegar fjandans perlufestin byrjaði að síga aftur. Þetta var meiri óláns skartgripurinn!
Hún leit niður, festin var farin að gægjast út undan pilsinu. Hún greip því dauðahaldi í niðurfallsrör með annarri hendinni, hysjaði upp um sig pilsið með hinni og tróð megninu af perlufestinni aftur ofan í sokkabuxurnar. Hún vonaði svo sannarlega að engin niðri á götu væri að líta upp því þetta var sannarlega grunsamleg sjón.
Hún hélt áfram eftir syllunni, framhjá svefnherbergi frúarinnar og að glugga setustofu sem var þar við hliðina. Sem betur fer var hann opinn þannig að hún snaraði sér innfyrir.
„Martine, hvað í ósköpunum ertu að gera stúlka?“ Hún leit við, það var yfirþjóninn. Sem betur fer var hann vinalegur eldri maður sem hafði alltaf umgengist hana eins og hún væri manneskja en ekki vinnudýr.
„Afsakaðu herra, ég var bara að athuga hvort þyrfti að þrífa gluggana utanfrá, mér sýndust þeir vera óhreinir.“
„Uss, uss, hafðu ekki áhyggjur af því, það eru aðrir sem sjá um það. En fyrst þú ert hérnagætir þú gert mér greiða.“ Hann hélt uppi bunka af bréfum. „Ég var á leiðinni með póstinn til herrans og sé að frúin á hér eitt bréf. Gætir þú fært henni það? Ég held að hún sé niðri í borðstofu.“ Hann rétti henni umslag.
„Sjálfsagt herra,“ svaraði hún og tók við bréfinu. Þetta var alveg kjörið, til þess að komast að borðstofunni þyrfti hún að fara framhjá aðaldyrunum. Þar gæti hún loksins skotist út.
Hún fór hröðum skrefum niður aðalstigann, að útidyrunum, en þegar hún opnaði þær sá hún aftur þrjá vaktmenn á götunni fyrir framan húsið. Martine snarstoppaði. Voru þetta sömu vaktmennirnir og voru fyrir aftan? Hún var ekki viss, þeir voru allir svo líkir í þessum bláu búningum með hjálmana sína og vopnin.
Þeir horfðu á hana og aftur þóttist hún vera að gá til veðurs. Hún veifaði síðan vinalega, fór inn og lokaði á eftir sér. Hvað nú? Hún var ennþá með bréf frúarinnar milli fingranna þannig hún gæti allt eins komið því til þeirrar gömlu.
Hún gekk inn í borðstofu, þar sat frúin við morgunverðarborðið ásamt dótturinni og tengdaföðurnum. Dóttirin var niðursokkin í einhverja bók og leit ekki upp, en tengdapabbinn, sem var mjög roskinn maður, var að reyna að hella heitu te í undirskálina sína. Við hlið markgreifafrúarinnar sat hundurinn prúður. Frúin var að reyna að gefa honum kex með kavíar.
„Svona dúllan mín, fáðu þér bita,“ sagði hún við hundinn, en hann fúlsaði við kræsingunum.
Martine stóð við dyrnar ræskti sig, „Afsakið frú, ég er hér með bréf til yðar.“
Frúin leit á hana, „Stattu ekki þarna eins og þvara stúlka, komdu með það til mín.“ Martine gerði það, en um leið og hún tók við því sagði frúin: „Farðu svo með dúlluna niður í eldhús og finndu eitthvað handa honum að borða. Hann er eitthvað sérvitur í matarvalinu í dag.“
„Eh … hundinn?“
Frúin hvessti augunum að Martine en leit svo á tengdapabbann sem var að sötra te úr undirskálinni. „Auðvitað hundinn, hvern hélstu að ég væri að meina?“
„Sjálfsagt frú,“ svaraði Martine og tók upp beislið. Við það losnuðu perlurnar aftur og fóru að síga enn á ný. Martine stirnaði.
„Meðal annars,“ hélt frúin áfram, „Hefur þú nokkuð séð unga herrann í morgun?“
„Ah … nei frú,“ svaraði Martine og iðaði til í pilsinu í vonlausri baráttu við rennsleipa perlufestina. Sem betur fer var frúin byrjuð að skoða bréfið og leit ekki upp.
„Hann er líklegast ennþá sofandi,“ sagði sú gamla, grunlaus um næturbrölt sonarins. „Jæja, ef hann er ekki kominn í morgunmatinn fljótlega sendi ég einhvern upp að vekja hann.“ Skyndilega tók hún eftir hreyfingum Martine. „Hvað er þetta stúlka? Ertu með njálg?”
„Ha? Nei, frú.” svaraði Martine og reyndi að standa kyrr,
„Jæja þá, ætlar þú ekki að fara með dúlluna mína í eldhúsið?“
„Auðvitað frú, fyrirgefið.“ Martine, hneigði sig klaufalega og leiddi hundinn fram. Nú var tíminn naumur, hún horfði löngunaraugum á útidyrnar en grunaði að sú leið væri ófær. Það var erfiðara að komast frá þessu húsi en að sleppa úr fangelsi! En kannski kæmist hún út um bakdyrnar núna.
Hún lagaði perlurnar enn og aftur og fór svo með seppa niður í eldhús. Þar stóð matráðskonan við hakkavél og vara að búa til pylsur. Þetta var þrútin, rauðleit kona og hún hvessti augunum þegar hún sá hundinn.
„Hvað ertu að gera með dýrið hérna?“ gelti hún.
„Frúin bað um að eitthvað yrði fundið handa honum að éta,“ svaraði Martine. „Honum langaði ekki í kavíar.“
„Fjandans dekurdýr. Er verið að troða í hann fokdýrum kavíar?“ Hún lagði frá sér seinustu ófylltu pylsurnar og sagði: „Hérna stelpa, kláraðu þetta á meðan ég fer og finn bita handa skepnunni. Ég þarf síðan að senda þig með þetta í reykhúsið á eftir.“
„Í reykhúsið?“ sagði Martine himinlifandi. Loksins var flóttaleiðin komin! Reykhúsið var hjá slátraranum í öðru hverfi og hún væri þá löglega afsökuð að yfirgefa húsið. Og þegar að matráðskonan var farin sá Martine annað sem gæti gert lífið auðveldara.
„Hana,“ sagði konan þegar hún kom tilbaka, „Ég fann nokkra kalkúnahálsa, dýrið getur gert sér þá að góðu. Ertu búin að gera seinustu pylsurnar?“
„Já,“ svaraði Martine skælbrosandi. „Ég ætla að sækja kápuna mína og get þá strax farið af stað í reykhúsið.“
Hún þaut af stað upp á herbergið sitt, greip yfirhöfnina og var komin aftur niður nokkrum mínútum síðar. Hún sá að bakdyrnar voru opnar og matráðskonan stóð fyrir utan og var að reykja pípu. Kerlingin gerði þetta oft, en passaði sig á því að reykja ekki innandyra.
En þegar Martine kom í eldhúsið rak hún næstum upp hljóð. Hundurinn var þarna ennþá, löngu búinn með kalkúnahálsana og var byrjaður að gæða sig á pylsunum. Hann hafði krækt í lengjuna á borðinu og dregið hana út á gólf.
„Skammastu þín! „Vondur hvutti!“ sagði hún og sló til dýrsins sem hrökklaðist undan.Hún greip upp pylsurnar, það var slatti eftir en, mikilvægustu hlutarnir höfðu horfið í kjaftinn á hundinum.
Þegar Martine hafði verið sett í það að fylla nokkrar sá hún sér leik á borði til að losna við þessi óþægindi í sokkabuxunum. Hún hafði því tekið perlufestina í sundur og troðið henni inn í pylsurnar.
Hún leit á lengjuna sem hún hafði hrifsað upp af gólfinu, það glitti á perlu í pylsuendanum en hún sá líka að bróðurparturinn var kominn í belginn á hundinum. Hvað átti hún að gera núna? Skera hann upp? Láta hann æla?
„Hvað, ertu ekki farin?“ spurði matráðskonan ásakandi um leið og hún gekk inn í eldhúsið.
Martine sá það í hendi sér að hún gæti varla farið að útskýra ástandið fyrir þessari konu. „Jú, jú. Ég er á leiðinni,“ Hún tróð restina af pylsunum ofan í strigapoka. „Ég fer með þær rakleiðis,“ sagði hún að lokum áður hún þaut út um bakdyrnar til móts við frelsið.
***
Þegar hún var komin í skjól skoðaði hún fenginn. Það var sem hana grunaði, þarna var eitt fet af skjannahvítum perlum, restin höfðu fengið nýtt heimili.
En ekki lengi! Í fyrramálið þegar frúin færi með hundspottið í göngutúr þá myndi Martine fylgja þeim hvert fótmál, dulbúin að sjálfsögðu. Hún tæki með sér poka og góða hanska því hún léti ekki svona verðmæti fara til spillis.
Þjófsstarfið gat verið hættulegt, spennandi, ábátasamt, en líka hrikalega sóðalegt.